Skráning aðseturs erlendis

Athugið!
Með aðsetursskráningu í útlöndum heldur einstaklingur lögheimili sínu á Íslandi en skráir aðsetur í því landi sem hann dvelur.

Tilkynna þarf um aðsetursskráningu hjá Þjóðskrá. Einungis er heimilt að skrá aðsetur í útlöndum á vegna námsdvalar, veikinda eða opinberra starfa. Heimildin er tímabundin. Sé ástæða aðsetursskráningarinnar ekki lengur til staðar skal óskað eftir hjá Þjóðskrá að hún verði felld niður.

Ekki er hægt að skrá aðsetur á Norðurlöndum, en samkvæmt Norðurlandasamningi ber þeim einstaklingum sem þangað flytja að eiga lögheimili í viðkomandi landi meðan á dvöl stendur.

Aðsetursskráning í útlöndum á grundvelli námsdvalar. Einstaklingi, ásamt maka hans og börnum, sem stundar nám í útlöndum er heimilt að hafa lögheimili á Íslandi á meðan á náminu stendur en skrá aðsetur sitt í námslandinu. Námsmanni ber að tilkynna til Þjóðskrár Íslands um dvölina og framvísa staðfestingu á skólavist. Ásamt því þarf að leggja fram staðfestingu frá þar til bæru yfirvaldi þess lands sem dvalið er í að viðkomandi sé ekki með skráð lögheimili þar. Námsmaðurinn þarf að hafa átt lögheimili samfellt á Íslandi í að minnsta kosti tvö ár áður en nám erlendis hófst. Heimild til aðsetursskráningarinnar er til fjögurra ára og fellur niður að þeim tíma liðnum nema nýrri staðfestingu um skólavist sé framvísað hjá Þjóðskrá. Berist Þjóðskrá ekki slík staðfesting innan tilskilins frests er stofnuninni heimilt að fella niður aðsetursskráninguna og skrá lögheimili námsmannsins í útlöndum.

Aðsetursskráning í útlöndum vegna veikinda. Einstaklingum er heimilt að halda lögheimili sínu á Íslandi þrátt fyrir dvöl í útlöndum vegna veikinda. Framvísa þarf vottorði, útgefnu af lækni með starfsleyfi á Íslandi, hjá Þjóðskrá um nauðsyn dvalar í útlöndum vegna veikinda. Ásamt því þarf að leggja fram staðfestingu frá þar til bæru yfirvaldi þess lands sem dvalið er í að viðkomandi sé ekki með skráð lögheimili þar. Heimild til aðsetursskráningarinnar miðast við að einstaklingurinn hafi átt lögheimili samfellt á Íslandi í að minnsta kosti tvö ár áður en veikindi hófust. Heimild til aðsetursskráningar í útlöndum vegna veikinda er til eins árs og fellur niður að þeim tíma liðnum nema óskað sé eftir áframhaldandi aðsetursskráningu og nýju læknisvottorði framvísað hjá Þjóðskrá. Stofnuninni er heimilt að fella niður aðsetursskráningu einstaklings og skrá lögheimili hans í útlöndum berist ekki fullnægjandi umsókn um áframhaldandi aðsetursskráningu.  

Aðsetursskráning í útlöndum vegna opinberra starfa. Heimild til aðsetursskráningar í útlöndum á grundvelli opinberra starfa nær til íslenskra ríkisborgara sem gegna störfum í útlöndum  á vegum ríkisins við sendiráð, fastanefnd eða ræðismannaskrifstofu og taka laun úr ríkissjóði. Einnig falla undir heimildina íslenskir ríkisborgarar sem eru starfsmenn alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að. Heimildin nær einnig maka og barna slíkra starfsmanna. Tilkynna skal aðsetursskráninguna hjá Þjóðskrá ásamt gögnum sem staðfesta ráðningu viðkomandi.

Skoða skráningu í þjóðskrá á Ísland.is

Á mínum síðum á Ísland.is má sjá yfirlit yfir lögheimilis- og aðsetursskráningu.

Mínar síður á Ísland.is

Panta vottorð

Panta búsetuvottorð, fæðingarvottorð eða önnur vottorð frá Þjóðskrá.

Panta vottorð