Tímabundið aðsetur

Athugið!
Með tímabundinni aðsetursskráningu heldur einstaklingur lögheimili sínu og þeim réttindum sem því fylgja en skráir aðsetur þar sem hann dvelur.

Hægt er að óska eftir skráningu aðseturs rafrænt með rafrænni auðkenningu, eða með því að koma í afgreiðslu Þjóðskrár í Borgartúni 21, Reykjavík og framvísa löggildum skilríkjum.

Skilyrði þess að fá aðsetur skráð er framvísun viðeigandi gagna sem tilgreind eru nánar hér að neðan.

  • Skráning aðseturs innanlands er heimil þeim sem hana þurfa vegna náms eða veikinda. Alþingismönnum og ráðherrum, ásamt mökum þeirra og börnum, er heimilt að halda lögheimili sínu á þeim stað sem viðkomandi höfðu fasta búsetu áður en tekið var við embættinu en fá skráð aðsetur vegna starfanna.

    Þegar óskað er eftir aðsetri innanlands vegna veikinda þarf að skila inn vottorði útgefnu af lækni með starfsleyfi á Íslandi.

    Þegar óskað er eftir aðsetri innanlands vegna skólavistar þarf að skila inn staðfestingu á skólavist frá umræddum skóla.

    Sé grundvöllur aðsetursskráningar ekki lengur til staðar skal óskað eftir að hún verði felld niður í afgreiðslu Þjóðskrá í Borgartúni 21 eða skrá lögheimili úr landi og senda tölvupóst á skra@skra.is og óska eftir að aðsetur verði fellt niður.

    ATH! Ekki er hægt að vera með lögheimili erlendis og aðsetur á Íslandi og aðilar búsettir eða í námi á Norðurlöndunum eiga ekki rétt á aðsetursskráningu þar samkvæmt Norðurlandasamningi.

  • Skráning aðseturs erlendis er heimil þeim sem hana þurfa vegna náms eða veikinda að því gefnu að viðkomandi hafi haft lögheimili samfellt á Íslandi í 2 ár áður en veikindi eða nám hófst.

    Íslenskir ríkisborgarar sem gegna störfum erlendis á vegum ríkisins við sendiráð, fastanefndir eða ræðisskrifstofu ásamt íslenskum ríkisborgurum sem eru starfsmenn alþjóðastofnana sem Ísland er aðili að skulu vera með lögheimili hér á landi en skráð aðsetur í því landi sem starfað er í. Framangreint á einnig við um maka og börn viðkomandi sem dvelja með honum erlendis.

    Gögn sem þarf að framvísa þegar óskað er eftir skráningu aðseturs vegna veikinda er vottorð frá lækni með starfsleyfi á Íslandi um nauðsyn dvalarinnar. Skráningin gildir í 1 ár og senda þarf inn nýtt vottorð ef óskað er eftir framlengingu. Ekki er heimilt að vera með skráð lögheimili í því landi sem aðsetur er skráð í og því þarf að skila inn staðfestingu á að svo sé ekki frá þar til bæru yfirvaldi þess lands sem dvalið er í ef óskað er eftir framlengingu oftar en tvisvar sinnum.

    Gögn sem þarf að framvísa þegar óskað er eftir skráningu aðseturs á grundvelli náms er staðfesting á námi frá erlendum háskóla eða hliðstæðri menntastofnun. Gildistími skráningar er allt að 4 ár. Ekki er heimilt að vera með skráð lögheimili í því landi sem aðsetur er skráð í.

    Gögn sem þarf að skila inn ef aðsetur er vegna vinnu erlendis á vegum ríkisins við sendiráð, fastanefndir eða alþjóðastofnun sem Ísland er aðili að er staðfesting frá sendiráði eða umræddri stofnun á að viðkomandi starfi þar.

    Sé grundvöllur aðsetursskráningarinnar ekki lengur til staðar skal óskað eftir að hún verði felld niður í afgreiðslu Þjóðskrá í Borgartúni 21 eða skrá lögheimili úr landi og senda tölvupóst á skra@skra.is og óska eftir að aðsetur verði fellt niður.

    ATH! Ekki er hægt að vera með lögheimili erlendis og aðsetur á Íslandi og aðilar búsettir eða í námi á Norðurlöndunum eiga ekki rétt á aðsetursskráningu þar samkvæmt Norðurlandasamningi.

  • Nú geta þeir aðilar sem voru með skráð lögheimili í Grindavík þann 10. nóvember 2023 og þurftu að yfirgefa heimili sín þann dag samkvæmt ákvörðun yfirvalda, sótt um skráningu á tímabundnu aðsetri innanlands.

    Skráningin gildir þar til lögreglustjóri tilkynnir Þjóðskrá um að skilyrði hennar séu ekki lengur fyrir hendi en einstaklingum er þó heimilt að halda skráningunni í allt að eitt ár frá tilkynningu lögreglustjóra.

    Einstaklingar skulu þá sjálfir tilkynna um niðurfellingu aðsetursskráningar þegar hennar er ekki lengur þörf en að öðrum kosti fellur hún sjálfkrafa niður þegar ár er liðið frá tilkynningu lögreglustjóra.

    Athugið að með tímabundinni aðsetursskráningu heldur einstaklingur lögheimili sínu og þeim réttindum sem því fylgja en aðsetur er skráð þar sem hann dvelur tímabundið vegna aðstæðna.

    Smelltu hér til að opna skráningu

Skoða skráningu í þjóðskrá á Ísland.is

Á mínum síðum á Ísland.is má sjá yfirlit yfir lögheimilis- og aðsetursskráningu.

Mínar síður á Ísland.is

Panta vottorð

Panta búsetuvottorð, fæðingarvottorð eða önnur vottorð frá Þjóðskrá.

Panta vottorð