Vegabréf fyrir börn
Börn þurfa alltaf að koma með á umsóknarstað þar sem ljósmynd er tekin á staðnum.
Forsjáraðilar þurfa að mæta ásamt barni þegar sótt er um vegabréf.
Komist annar forsjáraðili ekki á umsóknarstað þarf hann að fylla út eyðublað V-901 í viðurvist tveggja votta sem einnig rita nafn sitt á skjalið. Hinn forsjáraðilinn tekur það með sér á umsóknarstað.
Mæti báðir forsjáraðilar á umsóknarstað er eyðublað V-901 fyllt út þar.
Athugið að forsjá barns er ávallt könnuð hjá Þjóðskrá áður en vegabréf er útgefið. Haft verður samband við forsjáraðila ef gögn vantar. Forsjáraðilar þurfa í öllum tilvikum að framvísa löggildu skilríki (vegabréf, íslenskt ökuskírteini eða nafnskírteini) þegar sótt er um vegabréf.
Í tilvikum þar sem forsjáraðilar eru tveir og umsókn um útgáfu vegabréfs fyrir barn berst aðeins frá öðrum forsjáraðila, andstætt vilja hins forsjáraðilans, ber Þjóðskrá að leitast eftir afstöðu þess forsjáraðila sem ekki fellst á útgáfuna. Það ferli getur tekið allt að 2 vikur.
Athugið að þrátt fyrir að sýslumaður hafi úrskurðað um að heimild sé til ferðalags úr landi með barn, þá þarf Þjóðskrá samt sem áður ávallt að meta hvert tilvik fyrir sig áður en umsókn um vegabréf fyrir barn er samþykkt.Athugið að þegar tilbúin vegabréf barna eru sótt til Þjóðskrár eða á umsóknarstað þá er nóg að annar forsjáraðili mæti með löggild skilríki, og barnið þarf ekki að koma með.
Forsjáraðilar geta veitt 3ja aðila umboð til að sækja um vegabréf fyrir þeirra hönd. Þá skal fylla út eyðublað V-901 ásamt fylgiskjali við V-901.
Fari forsjáraðili einn með forsjá barns er undirskrift hans nægjanleg vegna umsóknar og staðfestir Þjóðskrá að viðkomandi fari einn með forsjá.
Sérstök athygli er vakin á að hafi forsjáraðili, sem fór einn með forsjá barns, gengið í hjúskap fyrir 01.01.2013 þarf einnig samþykki stjúpforeldris. Hafi forsjáraðili, sem fór einn með forsjá barns, skráð sig í sambúð í þjóðskrá fyrir 01.01.2012 þarf einnig samþykki sambúðarforeldris.
Ef forsjá barna er skráð hjá Þjóðskrá geta foreldrar séð hvernig henni er háttað á mínum síðum á Ísland.is undir „Þjóðskrá – Fjölskyldan mín“.
Ath. í sumum tilfellum þarf að kalla eftir forsjárgögnum frá útlöndum ef börn eru eða hafa verið búsett erlendis áður en hægt er að gefa út vegabréf.
Vegabréfið þitt
Þarftu/viltu vita gildistíma vegabréfsins þíns eða hvert númerið er á því?
Nánar á ísland.isLög og reglugerðir
Lög og reglugerðir um þjóðskrá, persónuskírteini og kjörskrá
Nánar um lög og reglugerðir