Brunabótamat

Um brunabótamat

 • Brunabótamat er vátryggingarfjárhæð húseigna sem iðgjöld lögbundinna brunatrygginga taka mið af. Brunatryggingin er ætluð til þess að eigandi fái tjón sitt bætt ef húseign hans brennur. Lögbundna brunatryggingin tekur aðeins til húseignar en ekki til innbús, staðsetningarverðmætis eða kostnaðar við frágang lóðar. Fasteignaeigendur þurfa að tryggja innbú sitt sérstaklega, kjósi þeir að láta brunatryggingu ná til þess. Í 4. grein reglugerðar um lögboðna brunatryggingu húseigna, númer 809/2000 er talið upp til hvaða byggingarþátta og annarra þátta vátrygging skuli ætíð ná og tillit skuli tekið til í brunabótamati.

  Samhliða innheimtu iðgjalds brunatryggingar eru innheimt opinber gjöld sem lögð eru á alla húseigendur og miðast við brunabótamat. Þessi gjöld eru meðal annars forvarnargjald sem rennur í Ofanflóðasjóð, viðlagatryggingargjald sem rennur til Viðlagatryggingar Íslands og brunabótamatsgjald sem rennur til Þjóðskrár Íslands.

 • Brunabótamat tekur til þeirra efnislegu verðmæta húseignar sem eyðilagst geta í eldi og miðast við byggingarkostnað að teknu tilliti til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar, að viðbættum kostnaði við hreinsun brunarústa. Virðisaukaskattur er reiknaður á allan byggingarkostnað sem tilheyrir brunabótamati, nema á vinnu manna á byggingarstað íbúðarhúsa en þar er dreginn frá sá hluti virðisaukaskatts sem fæst endurgreiddur (60%).

  Brunabótamat er endurreiknað árlega en uppfært mánaðarlega þess á milli í samræmi við breytingar á byggingavísitölu. Upplýsingar um byggingarvísitölu er hægt að finna á vef Hagstofu Íslands. Við árlegan endurreikning brunabótamats er miðað við þær breytingar sem orðið hafa á byggingarkostnaði hinna ýmsu tegunda húseigna næstliðið ár að teknu tilliti til eðlilegs viðhalds og efnislegra afskrifta.

 • Húseiganda er skylt að óska eftir brunabótamati nýrrar húseignar ekki síðar en fjórum vikum eftir að hún er tekin í notkun. 

  Húseiganda er skylt að óska eftir endurmati brunabótamats á húseign ef ætla má að verðmæti hennar hafi aukist vegna endurbyggingar eða endurbóta, enda er það til hagsbóta fyrir eigandann ef tjón ber að höndum að brunabótamat endurspegli raunverulegt vátryggingarverðmæti.

  Ef húseigandi telur brunabótamat ekki lýsa efnislegu verðmæti húseignar sinnar getur hann krafist endurmats brunabótamats.

  Fyrsta brunabótamat er húseiganda að kostnaðarlausu en álagning skipulagsgjalds fer fram í kjölfar þess. Skipulagsgjald er 0,3% af brunabótamati nýbyggingar og rennur í skipulagssjóð. Greiða þarf fyrir endurmat brunabótamats samkvæmt gjaldskrá.

Athugið

01

Tilgangur brunabótamats  er að finna vátryggingafjárhæð húseigna.

02

Húseiganda er skylt að óska eftir brunabótamati  nýrrar húseignar ekki síðar en fjórum vikum eftir að hún er tekin í notkun

03

Húseiganda er skylt að óska eftir endurmati brunabótamats  á húseign ef ætla má að verðmæti hennar hafi aukist vegna endurbyggingar eða endurbóta

04

Brunabótamat er uppfært mánaðarlega  í samræmi við breytingar á byggingarvísitölu.