Vottorð
Vottorð
Afgreiðslutími vottorða sem pöntuð eru á vef er 2 virkir dagar eftir að pöntun er móttekin. Pantanir sem eru mótteknar í gegnum þjónustuver Þjóðskrár Íslands eru teknar til afgreiðslu allt að 2 virkum dögum eftir að þær hafa verið mótteknar. Helgar og frídagar teljast ekki til virkra daga. Ef póstleggja á vottorð þá bætist sendingartími Íslandspósts við afgreiðslutímann.
Einstaklingur getur eingöngu pantað vottorð fyrir sjálfan sig, skráðan maka og börn sín undir lögaldri auk annarra aðila sem viðkomandi kann að hafa forsjá yfir. Foreldrar geta þó alltaf pantað fæðingarvottorð barna sinna. Sé vottorð pantað fyrir hönd annars einstaklings þarf að framvísa umboði sem er vottað af tveimur aðilum. Vottorð eru einungis gefin út á íslensku eða ensku.
Vottorð eru send á lögheimili þess sem tilgreindur er á vottorðinu nema annað sé tilgreint. Ef vottorð er pantað á netinu eða í þjónustuveri gegn framvísun löggildra skilríkja er að auki hægt að óska eftir að það sé sent í tölvupósti. Þegar vottorð er sótt í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands skal framvísa löggiltum persónuskilríkjum. Ef annar aðili en sá sem vottorð er fyrir ætlar að sækja vottorð þarf einnig að framvísa löggiltum skilríkjum og umboði.
Í tilfellum þar sem þörf er að útskýra atriði sem koma fram á vottorðum sem eru útgefin af Þjóðskrá Íslands t.d. nafnritun, hjúskaparstöðu, kennitölur o.s.frv. getur gagnast að prenta út eftirfarandi skjal: Appendix to certificates issued by Registers Iceland.