Nöfn

Skráning nafna

 • Skylt er að gefa barni nafn áður en það verður 6 mánaða gamalt. Eftirfarandi gildir um börn búsett á Íslandi:

  • Forsjármenn tilkynna um nafngjöf barns. Ef forsjá barns er sameiginleg tilkynnir annar forsjáraðilinn nafngjöf og hinn forsjáraðilinn þarf að staðfesta skráninguna. Ef nafngjöf er ekki staðfest telst skráning ekki fullnægjandi og verður hafnað í þjóðskrá. Ef barn er skírt og forsjármenn hafa ekki tilkynnt nafngjöf til Þjóðskrár Íslands sér viðkomandi prestur eða forstöðumaður trúfélags um að senda tilkynningu um nafngjöf/skírn til Þjóðskrár Íslands.
  • Þau nöfn sem heimilt er að gefa barni eru á Mannanafnaskrá. Erlendir ríkisborgarar mega bera erlent nafn sem ekki er í skránni. Mannanafnanefnd úrskurðar um önnur nöfn. Ef gefa á barni nafn sem ekki er á mannanafnaskrá skal fylla út umsókn til mannanafnanefndar.
  • Ef foreldrar eru ekki í hjónabandi né skráð í sambúð í þjóðskrá við fæðingu barns er barn kennt til móður. Ef óskað er eftir því að kenna það til föður, þarf barnið að vera feðrað. Gengið er frá faðernisviðurkenningu hjá sýslumönnum (fæðingarvottorð þarf að hafa meðferðis frá Þjóðskrá Íslands) eða með því að fylla út eyðublað á vef Þjóðskrár Íslands. Einnig er barn feðrað ef foreldrar skrá sig í sambúð eða gifta sig eftir fæðingu þess. Kenninafni barns er síðan breytt til samræmis við tilkynningar um skírn eða nafngjöf. 
  • Erlendir ríkisborgarar 
   Skráning nafns barns sem búsett er erlendis: Íslenskir ríkisborgarar búsettir erlendis: sjá Barn fætt erlendis
 • Heimilt er að breyta nöfnum ef skilyrði mannanafnalaga eru uppfyllt. Nafnbreytingar eru heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á.

  Hverju má breyta?

  Eigin- og millinöfn mega samtals vera 3 og kenninöfn 2. Að hámarki má bera 5 nöfn.

  • Eiginnafn. Ef óskað er eftir nafni sem ekki er á mannanafnaskrá þá áframsendir Þjóðskrá Íslands til mannanafnanefndar.
  • Millinafn. Millinöfn hafa ákveðna sérstöðu og gilda mismunandi reglur. Millinöfn eiga að vera á mannanafnaskrá en jafnframt er heimilt að bera eiginnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn auk þess er í sumum tilfellum heimilt að bera ættarnafn sem millinafn. Íslenskur ríkisborgari má einungis taka upp ættarnafn maka sem millinafn
  • Kenninafn. Kenning til móður eða föður eða beggja eða ættarnafn hafi einstaklingur rétt á að bera það. Til þess að mega bera ættarnafn sem kenninafn þarf að sýna fram á að ættingi í beinan legg hafi haft nafnið skráð í þjóðskrá við gildistöku mannanafnalaga haustið1991 og síðar.  Íslenskur ríkisborgari sem vill bera ættarnafn maka getur einungis tekið það upp sem millinafn. 

  Nafnbreytingar eru gjaldskyldar ef:

  • Verið er að fella niður eða taka upp eiginnafni, breyta röð eiginnafna.
  • Taka á upp eða fella niður millinafn sem er á mannanafnaskrá, taka á upp eiginnafn foreldris í eignarfalli sem millinafn eða taka á upp sérstakt millinafn sem ekki er ættarnafn.
  • Kenna á feðrað barn við stjúpforeldri.
  • Kenna á fósturbarn í varanlegu fóstri til fósturforeldris.
  • Þú ert íslenskur ríkisborgari sem varð að breyta nafni sínu við upptöku íslensks ríkisfangs þá er þér og niðjum þínum heimilt að taka aftur upp þau nafn/nöfn sem felld voru niður.

  Erlendir stafir eru ekki skráðir í þjóðskrá. Til erlendra staftákna teljast tákn sem ekki eru í íslenska stafrófinu. Erlendir bókstafir eru umritaðir samkvæmt ákveðnum reglum.

  Breyting á nafni 18 ára og eldri

  Breyting á nafni barns yngra en 18 ára

  Breytt ritun nafns 18 ára og eldri

  Breytt ritun nafns 18 ára og yngri
 • Ef breyta á nafni barns þá þarf ávallt samþykki beggja forsjármanna. Hafi forsjá breyst frá því að barnið var nefnt þá þarf jafnframt samþykki þess sem fór með forsjá barnsins við upprunalegu nafngjöf. Ef barnið er 12 ára eða eldra þarf samþykki þess. 

  Ef breyta á kenninafni barns þá þarf ávallt samþykki þess sem barnið er nú kennt við. Ef kenna á barn til stjúpforeldris eða fósturforeldris þá þarf ávallt samþykki foreldra þrátt fyrir að barn sé ekki kennt við það né fari með forsjá barnsins.

  Nafnbreytingar eru heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á. Ef nafni barns er breytt þá hefur það ekki áhrif á möguleika þess að óska eftir nafnbreytingu eftir 18 ára aldur. 

 • Íslendingar með lögheimili í útlöndum þurfa að fá nafni sínu breytt í því landi sem þeir búa. Eftir að nafni hefur verið breytt í útlöndum þarf senda staðfestingu til Þjóðskrár Íslands. Staðfesting getur verið vottorð frá erlendu stjórnvaldi eða löggilt skilríki þar sem nýja nafnið kemur fram. Afrit af löggiltum skilríkjum þarf að fylgja. 

  Ráðlagt er að hafa nöfn skráð eins á Íslandi og erlendis. Þeir sem bera annað nafn í þjóðskrá en þeir eru skráðir með erlendis geta lent í vandræðum með að sýna fram á að þeir séu einn og sami maðurinn.

 • Erlendir ríkisborgarar sem búa á Íslandi geta sótt um nafnbreytingu á grundvelli laga um mannanöfn.
  Athugið að nafnbreytingar sem leyfðar eru hérlendis gætu verið óheimilar í heimalandinu.

 • Mannanafnanefnd heyrir undir dómsmálaráðuneytið, en ekki Þjóðskrá Íslands. Til þess einfalda umsóknarferli um nafnbreytingu vegna nafns sem ekki er á skrá þá hefur Þjóðskrá Íslands milligöngu um öll erindi sem nefndin á að fjalla um.  

  Greiða þarf fyrir umfjöllun nefndarinnar.

 • Fullt nafn einstaklinga er skráð í þjóðskrá og eru engin takmörk á lengd nafns.  Fullt nafn birtist í vegabréfi, nafnskírteini, fæðingarvottorðum og öðrum vottorðum útgefin af Þjóðskrá Íslands. 

  Fullt nafn einstaklings er samsett úr eiginnafni/nöfnum, millinafni ef við á og kenninafni/nöfnum. Jafnframt er ávallt skráð birtingarnafn sem er takmarkað við 44 stafbil og er það nafn sem er miðlað áfram til þjónustuveitenda og er það nafn sem opinberir aðilar og einkaaðilar sjá í sínum kerfum. Auk þess er skráð svokallað miðlað nafn sem er 31 stafbil fyrir þjónustuveitendur sem ekki dreifa birtingarnafni. 

  Dæmi:
  Fullt nafn: Sigurður Jón Hafnfjörð Hróbjartsson Margrétarson (48 stafbil)
  Eiginnafn/nöfn: Sigurður Jón
  Millinafn: Hafnfjörð
  Kenninafn/nöfn: Hróbjartsson Margrétarson
  Birtingarnafn: Sigurður Jón H. Hróbjartsson Margrétarson (41 stafbil)
  Miðlað nafn: Sigurður Jón H. H. Margrétarson (31 stafbil)

  Ítarefni um nafnritun og erlenda stafi

Athugið

01

Áður en barn verður  6 mánaða skal tilkynna nafn

02

Engin takmörkun er á lengd nafns í þjóðskrá  en lengd miðlaðs nafns fer eftir þeim sem dreifir, ýmist 31 eða 44 stafir

03

Nafnbreytingar eru  heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á

04

Ef foreldrar barns eru hvorki í hjónabandi né óvígðri sambúð  við fæðingu barns fer móðir ein með forsjá og barnið er kennt til móður