Skráning fasteigna

Skráning fasteigna

 • Fasteign er afmarkaður hluti lands, ásamt lífrænum og ólífrænum hlutum þess, réttindum sem því fylgja og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. 

  Fasteign getur jafnframt verið séreignarhluti í fjöleignarhúsi samkvæmt lögum um fjöleignarhús. 

  Sótt er um skráningu nýrra fasteigna eða breytingu á þeim hjá skipulags- og byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. 

  Nýskráning á grundvelli uppskiptingar landeignar

  Ný landeign á alltaf uppruna í annarri eldri landeign sem skipt er upp. Sækja þarf um uppskiptinguna til viðkomandi sveitarfélags og leggja þarf fram hnitsettan uppdrátt (mæliblað) sem sýnir afmörkun hinnar nýju landeignarinnar. 

  Við uppskiptingu þarf að ákveða hvaða staðföng eiga að vera innan nýju landeignarinnar (sjá umfjöllun um staðföng neðar á þessari síðu). Heiti staðfanga á nýrri landeign og fjöldi þeirra á alltaf að byggja á fyrirhugaðri notkun landeignarinnar, þ.e. hvort reisa á þar mannvirki, hversu mörg mannvirki og hversu margir inngangar verða að hverju þeirra. 

  Nýjar landeignir eru færðar inn í landfræðilegan gagnagrunn sem heitir landeignaskrá. Í vefsjá landeigna má skoða allar landeignir sem skráðar hafa verið frá ársbyrjun 2013. Samhliða nýskráningu er unnið að innfærslu eldri heimilda um afmörkun landeigna og er skráin í örum vexti.

  Landeignaskrá er einnig aðgengileg til niðurhals án endurgjalds

  Sjá eyðublað F-550 Eyðublöð 

  Nýskráning á grundvelli eignaskiptayfirlýsingar

  Ef fjölga á fasteignum innan landeignar eða í fjölbýli þarf að útbúa eignaskiptayfirlýsingu og sækja um skráningu til viðkomandi sveitarfélags. Yfirlýsingin tekur gildi við þinglýsingu. 
  Hér má nálgast nánari upplýsingar um eignaskiptayfirlýsingar

  Sjá eyðublað F-551 Eyðublöð

  Greitt er fyrir nýskráningu í fasteignaskrá samkvæmt gjaldskrá Þjóðskrár Íslands. 

 • Sótt er um samruna fasteigna til skipulags- og/eða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags. Yfirlýsing um eignarhlutdeild í sameinaðri fasteign þarf að liggja fyrir, nema þar sem fasteignir eru allar í eigu sama aðila. Að sama skapi þurfa veðbönd að vera þau sömu eða fá samþykki veðhafa fyrir einni veðröð.

  Ný fasteign á grundvelli samruna fasteigna í fjöleignarhúsi

  Ef sameina á fasteignir í fjöleignarhúsi þarf að gera nýjan eignaskiptasamning. 

  Ný fasteign á grundvelli samruna landeigna

  Þegar sameina á landeignir þarf að leggja fram mæliblað sem sýnir afmörkun hinnar nýju landeignar að fullu. Undantekningar geta verið á þessu og er því best að fá ráðleggingar hjá viðkomandi sveitarfélags áður en lagst er í gerð mæliblaða.

  Þjóðskrá Íslands innheimtir ekki gjald fyrir samruna fasteigna. 

 • Sótt er um allar breytingar á skráningu fasteigna til viðkomandi sveitarfélags. Breytt skráning felur ekki í sér tilkomu nýrra fasteigna heldur aðeins uppfærslu á skráðum eigindum, sjá nánar Nýskráning og Samruni.

  Breytingar á landnotkun landbúnaðarlands á vef Stjórnarráðsins

 • Þegar mæla á upp eignamörk landeigna sem áður hafa verið staðfest þarf fyrst að kanna hvaða gögn liggja þegar fyrir. Hægt er að fletta eigninni upp í Vefsjá landeigna og athuga hvort afmörkun hefur verið skráð hjá Þjóðskrá Íslands. Gögn gæti einnig verið að finna hjá sveitarfélögum, sýslumanni og í landamerkjabókum.  

  Nánari upplýsingar um ferli uppmælingar má nálgast hér: 

  Uppmæling eignamarka (pdf)  

  Jarðavef Þjóðskjalasafnsins

  Fróðleik og nánari upplýsingar um eignamörk er að finna undir Útgáfur og skjöl – fróðleikur greinar og bæklingar

 • Staðfang (e. Access address) geymir bæði lýsandi og rúmfræðilegar upplýsingar um staðsetningu. Með lýsandi upplýsingum er til að mynda átt við í hvaða sveitarfélagi, bæ eða hverfi staðfangið er og við hvaða götu. Með rúmfræðilegum upplýsingum er átt við tvívítt hnit í samræmdu landshnitakerfi.

  Staðföng nýtast þannig við skráningu einstaklinga, fyrirtækja, landeigna, mannvirkja, svæða eða annars sem þörf er á. Staðföng gagnast því almenningi með beinum hætti, sem og í gegnum hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki, svo sem stjórnvöld, neyðarþjónustu, rannsóknaraðila, veitufyrirtæki og fleiri.  

  Í grunninn er staðfang áfangastaður. Það vísar á inngang mannvirkis eða annars konar aðkomu. Tengslum staðfanga og landeigna er þannig háttað að mörg staðföng geta verið tengd hverri landeign en aðeins ein landeign er tengd hverju staðfangi. Þannig getur t.d. hver stigagangur fjölbýlishúss átt sitt staðfang. 
  Staðfangaskrá inniheldur nú í byrjun árs 2017 færslur fyrir um 94% skráðra fasteigna í fasteignaskrá. 

  Handbók um skráningu staðfanga - leiðbeiningar

  Handbók um skráningu staðfanga - notkunardæmi

  Reglugerð um skráningu staðfanga nr. 577/2017

  Staðfangaskrá er aðgengileg til niðurhals án endurgjalds 
 • Frá árinu 2010 hefur Þjóðskrá Íslands annast útgáfu lögbýlaskrár en skráin er gefin út samkvæmt 26. gr. jarðalaga nr. 81/2004. Í lögbýlaskrá koma fram upplýsingar um öll lögbýli á landinu. Skráin er gefin út í upphafi hvers árs og inniheldur upplýsingar um skráð lögbýli á landinu í árslok fyrra árs.

  Ýmsar skýrslur 

Athugið

01

Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélags  sér um alla skráningu land- og fasteigna

02

Ef einungis á að ráðstafa hluta land- og/eða fasteigna  þarf að skrá hann sem sjálfstæða einingu

03

Landamerkjayfirlýsingum er skilað  til sveitarfélags til staðfestingar áður en þeim er þinglýst