Reglugerð um skráningu staðfanga

05.07.2017

Reglugerð um skráningu staðfanga

Mikilvægum áfanga hefur verið náð með setningu reglugerðar um skráningu staðfanga, nr. 577/2017. Unnið hefur verið að því í mörg ár að fá lagagrundvöll fyrir staðföng og núna loks reglugerð sem mælir fyrir um samræmda framkvæmd við skráningu staðfanga. En staðfang lýsir landfræðilegri staðsetningu, svo sem aðkomu að mannvirki, lóð eða áfangastað. Í staðfangi eru fólgnar upplýsingar um nafn (staðvísir), númer (staðgreinir), og hnit (staðsetningu). Staðfang er tegund örnefnis og heimilisfang er tegund staðfangs. 

Í reglugerðinni er skýrt kveðið á um hlutverk og ábyrgð sveitarfélaga, Þjóðskrár Íslands, Landmælinga Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar, sem hefur leiðbeinandi hlutverk á sviði nafngifta nýrra staðfanga. Þjóðskrá Íslands heldur miðlæga staðfangaskrá og fer m.a. með miðlun staðfanga til notenda. Sveitarfélögin annast nafngiftir og bera ábyrgð á skráningu staðfanga innan staðarmarka sveitarfélaga. Landmælingar Íslands halda miðlægan örnefnagrunn. Nýmæli eru í reglugerðinni um hverfi, staðvísi og staðföng. Sjá reglugerð um skráningu staðfanga.


Til baka