Afmarkanir 50.000 landeigna skráðar í Landeignaskrá Þjóðskrár Íslands

08.11.2017

Afmarkanir 50.000 landeigna skráðar í Landeignaskrá Þjóðskrár Íslands

Landeignaskrá inniheldur nú afmörkun 48% allra skráðra landeigna á Íslandi, alls 51.595 eignir. Skoða má skrána á myndrænan hátt á vefsjá landeigna. Gögn sjárinnar eru uppfærð daglega og að auki er daglega uppfærð landeignaskrá í boði til niðurhals án endurgjalds á vef stofnunarinnar, skra.is.

Landeignaskrá er samsafn upplýsinga úr landupplýsingakerfum sveitarfélaga, af mæliblöðum samþykktum af sveitarfélögum og úr þinglýstum skjölum. Hver afmörkun er merkt sérstaklega með tilliti til uppruna og gæða og er því auðvelt að greina á milli áætlaðra gagna annars vegar og gagna sem byggja á mælingum hins vegar. Ennfremur má bera saman skráða og mælda stærð þeirra landeigna sem afmarkaðar hafa verið og þannig koma fljótt auga á villur hvorum megin sem þær kunna að leynast. Hver sem er getur því nú, með ábyrgum hætti, skoðað, nýtt sér og miðlað áfram gögnum þar sem uppruni og gæði eru skýr. Þjóðskrá Íslands getur ekki ábyrgst framsetningu þriðja aðila á gögnunum, en hvetur alla notendur gagnanna eindregið til þess að nýta sér í hvívetna þær öru uppfærslur og gæðamerkingar sem við bjóðum uppá.   

Afmörkun nýrra landeigna er aðgengileg í vefsjánni strax við skráningu. Markvisst er unnið að innfærslu eldri gagna en aðeins er unnið með þinglýst skjöl og gögn frá sveitarfélögum. Hægt og rólega byggist upp áreiðanleg skrá yfir eignamörk á landsvísu - skrá sem auðvelt er að nálgast og nýta án endurgjalds.  

 


Til baka

Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár Íslands út desember 2020.

Skoða nánar
Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?