Þjóðskrá11. maí 2018

Fjölbýlið er lykillinn að rafbílavæðingu

Um fimmtungur íbúðabygginga landsins eru án aðgengis að rafmagni til hleðslu rafmagnsbíla. Sum sveitarfélög eru stutt frá því að geta boðið öllum íbúum aðgengi að rafmagnshleðslu.

Sífellt fjölgar þeim landsmönnum sem hafa kosið að keyra um götur landsins á rafbílum eða tengitvinnbílum. Hraðhleðslustöðvar gera landsmönnum kleift að ferðast hringinn í kringum landið á rafbílum en fyrir marga eru það væntanlega ekki langferðirnar sem skipta sköpum heldur aðstæður fyrir hið daglega amstur. Það gefur auga leið að til að geta notað rafbíl daglega þurfa ákveðnar forsendur að vera til staðar.

Í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands má finna gögn um aðstæður fyrir rafbílavæðingu íbúa hér á landi. Fyrir þá aðila sem móta framtíðarsýnina í þessum málaflokki þá getur reynst heillavænlegt að skoða hvaða þarfir íbúar hafa áður en farið er í að framkvæmdir til að styðja við rafbílavæðingu. Ríkið, sveitarfélög og orkufyrirtæki landsins munu væntanlega öll eiga stóran þátt í því hvernig umrædd rafbílavæðing fer fram. Í sumum sveitarfélögum eru aðstæður slíkar að ekki er þörf á miklum úrbótum til þess að sveitarfélagið geti í raun boðið öllum íbúum sínum upp á aðstöðu til að hlaða rafbíla.

Í þessari greiningu er útgangspunkturinn sá að það að geta hlaðið bílinn heima sé forsenda almennrar útbreiðslu rafbíla. Skoðaðar voru allar skráðar, fullbúnar íbúðir og þær flokkaðar í  5 flokka. Flokkur 1 eru íbúðir sem eiga bílskúr, flokkur 2 eru íbúðir sem flokkast sem sérbýli en eru ekki með skráðan bílskúr, flokkur 3 eru íbúðir með eigið stæði í bílageymslu, flokkur 4 er tveggja hæða fjölbýli og flokkur 5 eru fjölbýli á meira en tveimur hæðum.

Það er ljóst að útbreiðsla rafbíla er líklegri í flokkum 1-3 en í flokkum 4-5 þarf oftar að grípa til flóknari aðgerða, svo sem með uppsetningu rafmagnstengla við sameiginleg bílastæði. 

Rafbílavæðing

Myndin sýnir hlutfall íbúða á hverjum reit á höfuðborgarsvæðinu sem hafa ekki auðveldan aðgang að rafmagni til þess að hlaða rafbíl. 

Fimmtungur í erfiðri stöðu

Miðað við þessa greiningu þá er um 49% alls íbúðarhúsnæðis í flokki sem telja má að sé líklegt eða mjög líklegt til að hafa auðvelt aðgengi að rafmagni, t.d. með bílskúr eða ef íbúð flokkast sem sérbýli. Um 8% íbúðarhúsnæðis á landinu er með aðgang að eigin stæði í bílageymslu sem flokkað er sem milliflokkur og 43% íbúðarhúsnæðis er með lítið eða erfitt aðgengi að eigin rafmagnstenglum sem hægt er að nota fyrir hleðslu rafbíla.

Þeir aðilar sem eru með erfitt aðgengi að rafmagni til að hlaða bíla eru á meðal íbúa í tæplega 14 þúsund byggingum hér á landi. Það er um 18,5% af byggingum sem tilheyra flokki íbúðarhúsnæðis. Aðstæður þarna eru væntanlega af ýmsum toga. Í sumum þessara fjölbýlishúsa eru stór bílastæði fyrir íbúa sem gætu boðið upp á aðstæðubundnar hleðslulausnir á meðan önnur eru án sérstakra bílastæða þar sem íbúar myndu frekar geta nýtt sér lausnir á borð við hraðhleðslustöðvar í grennd við íbúðarhúsnæði.
 

Hlutfall íbúða

Hlutfall bygginga

Flokkur 1-3

Flokkur 4-5

Flokkur 1-3

Flokkur 4-5

Reykjavík

42,0%

58,0%

65,9%

34,1%

Kópavogur

58,9%

41,1%

79,8%

20,2%

Seltjarnarnes

70,8%

29,2%

85,6%

14,4%

Garðabær

80,5%

19,5%

93,9%

6,1%

Hafnarfjörður

53,8%

46,2%

77,3%

22,7%

Mosfellsbær

75,0%

25,0%

89,7%

10,3%

Reykjanesbær

44,8%

55,2%

80,0%

20,0%

Grindavík

84,5%

15,5%

94,7%

5,3%

Akranes

62,8%

37,2%

84,5%

15,5%

Akureyri

49,1%

50,9%

78,6%

21,4%

Ísafjarðarbær

62,7%

37,3%

84,2%

15,8%

Fljótsdalshérað

72,5%

27,5%

90,8%

9,2%

Sveitarfélagið Árborg

80,5%

19,5%

94,9%

5,1%

Hveragerði

90,0%

10,0%

96,1%

3,9%

Landið allt

57,5%

42,5%

81,5%

18,5%

Það sést á meðfylgjandi töflu að þótt 42,5% íbúða hafa ekki aðgang að eigin rafmagni þá er um færri byggingar að ræða. Séu gögnin skoðuð landfræðilega má sjá að mesta þörfin á samnýttum lausnum er í eldri hverfum svo og við fjölbýli í úthverfum eins og við er að búast. Án þess að afstaða sé tekin til þess hver sjái um uppbyggingu hleðslustöðva þá er ljóst að fjárfestingarþörf er mjög mismunandi á milli sveitarfélaga. Sum sveitarfélög geta að fullu rafbílavæðst án mikils tilkostnaðar á meðan sú vegferð er talsvert lengri annars staðar.

Smelltu hér til að skoða öll gögnin í Excel. Ef þú vilt ekki láta Excel opnast í vafranum, þá getur þú hægri smellt og valið „Save target/link as“ og fært skjalið niður á harða diskinn og opnað það síðan í Excel.

Hægt er að sækja kortið sem geojson fláka hér. Hægt er að opna gögnin í landupplýsingakerfi. Dálkurinn hlutfall inniheldur upplýsingar um hlutfall í flokkum 4 og 5

Öllum er heimil afnot af fréttinni og meðfylgjandi gögnum en vinsamlegast getið heimildar.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 9. maí 2018


Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar