Gild landamerki jarða á Íslandi fara eftir þinglýstum heimildum hverskonar. Í tilfelli meirihluta þeirra eru gild landamerki samkvæmt þinglesnum landamerkjalýsingum. Þar er mörkum milli jarða aðeins lýst í orðum en þau ekki sett fram myndrænt á korti. Þessar lýsingar eru geymdar í landamerkjabókum, en unnt er að nálgast þær hjá viðkomandi sýslumannsembætti og á vef Þjóðskjalasafns Íslands.
Færst hefur í vöxt að landeigendur láti mæla upp landamerkin sín með nútíma tækni, skrái þau í landeignaskrá Þjóðskrár Íslands og þinglýsi nýjum landamerkjayfirlýsingum. Leiðbeiningar um uppmælingu eignamarka. Þar sem slík uppmæling hefur verið framkvæmd er í mörgum tilfellum hægt að skoða landamerkin á stafrænu formi í vefsjá landeigna. Í vefsjánni er einnig hægt að skoða afmarkanir sem byggja á annarskonar heimildum, en uppruni gagna og nákvæmni er þar skráð sérstaklega og birt í samhengi við hverja landeign fyrir sig.
Í vefsjá landeigna má einnig skoða gögn sem unnin voru árið 2006 í tengslum við Nytjalandsverkefnið. Línur voru þar dregnar upp á áætluðum mörkum jarða eftir misáreiðanlegum heimildum í þeim tilgangi að meta gæði lands og umfang. Þær línur hafa þó enga lagalega þýðingu og ber aðeins að taka sem vísbendingu fyrir frekari heimildaöflun um landamerki. Nánari upplýsingar um landamerki má nálgast á vef Þjóðskrár Íslands og í vefsjá landeigna undir upplýsingum um hverja gagnaþekju.
Úr bæklingnum Uppmæling eignamarka - Jarðir og lóðir