Ísland.is

Hlutverk Þjóðskrár vegna upplýsinga- og þjónustuveitu Ísland.is

Ísland.is er upplýsinga- og þjónustuveita opinberra aðila á Íslandi. Þar getur fólk og fyrirtæki fengið upplýsingar og notið margvíslegrar þjónustu hjá opinberum aðilum á einum stað í gegnum eina gátt.

Meginmarkmið Ísland.is er að einstaklingar og fyrirtæki geti afgreitt erindi sín við stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, hvenær sem er, hvar sem er og án tafar. Einnig geti einstaklingar og fyrirtæki fengið upplýsingar um sín mál og fylgst með stöðu þeirra. Einstaklingum er veittur aðgangur að persónubundnum upplýsingum um sig í skrám opinberra aðila.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar frá því í lok nóvember 2017 segir: „Sett verður á fót rafræn þjónustugátt þar sem landsmenn geta á einum stað nálgast þjónustu hins opinbera og sinnt þeim erindum sem beinast að stjórnvöldum. Þá verður opnuð samráðsgátt þar sem óskað verður eftir afstöðu almennings til lagasetningar og verkefna þegar á undirbúningsstigi og gagnsæi aukið.“

Frá 1. febrúar 2020 felst hlutverk Þjóðskrár  í rekstri þjónustuvers fyrir Ísland.is og í útgáfu Íslykla. Rekstur og þróun Ísland.is og tengdra kerfa er í höndum Fjármála- og efnahagsráðuneytisins og verkefnastofu um stafrænt Ísland sem ráðuneytið starfrækir. 

Þjónusta á Ísland.is  

Pósthólf á mínum síðum. Einstaklingar og lögaðilar hafa aðgang að pósthólfi með skjölum frá opinberum aðilum, stofnunum og sveitarfélögum. Engin skjöl eru vistuð í pósthólfi, heldur eru þau sótt til viðkomandi stofnunar þegar innskráður einstaklingur óskar eftir þeim.

Mínar síður. Þar geta einstaklingar séð upplýsingar um sig í þjóðskrá, fasteignaskrá, ökutækjaskrá, bólusetningaskrá, námsferilsskrá framhaldsskólanna (Innu) og skimunarskrá Krabbameinsfélags Íslands. Engin gögn eru vistuð á Ísland.is, aðeins er um gagnaflutning að ræða í gegnum dulkóðaða rás beint frá skráarhaldara til innskráðs notanda.

Samráðsgátt. Markmið gáttarinnar er að auka gagnsæi og möguleika almennings og hagsmunaaðila á þátttöku í stefnumótun, reglusetningu og ákvarðanatöku opinberra aðila. Þar er að finna áform um lagasetningu, drög að lagafrumvörpum og reglugerðum, skjöl um stefnumótun og fleira. Til viðbótar við opið samráð á netinu geta verið annars konar samráðsferlar, svo sem þátttaka helstu hagsmunaaðila í nefndarstarfi eða sérstakt boð til þeirra um umsögn.

Undirskriftalistar. Kerfinu er sérstaklega ætlað að þjónusta íbúa sveitarfélaga landsins sem vilja knýja á um íbúakosningar um tiltekið málefni. Á Ísland.is er vettvangur til að safna undirskriftum rafrænt um þau málefni sem eru fólki hugleikin. Notuð er innskráningarþjónusta Ísland.is og lögmæti undirskriftar kannað jafnóðum. Einnig er hægt að safna undirskriftum á pappír og skila inn í kerfið á rafrænu formi.

Opin gögn er ætlað að þjóna öllum þeim opinberu aðilum sem vilja birta gögn um starfsemi sína og hafa þau öllum opin. Með opnum gögnum er ekki aðeins átt við að almenningi sé veittur aðgangur að gögnunum heldur að hver sem er geti notað, umbreytt og deilt gögnunum með hvaða hætti sem er.

Sjálfsafgreiðsla er þjónusta fyrir þá sem ætla að sækja um leyfi til hins opinbera og þá sem koma að því að veita leyfið. Auðkenndur einstaklingur eða lögaðili sækir um leyfi í öruggu umhverfi og lætur gáttina sækja fyrir sig flest nauðsynleg fylgigögn. Umsækjandi fylgist síðan með ferli umsókna sinna á einum stað. Umsagnaraðilar og leyfisveitendur hafa einnig aðgang að gáttinni varðandi þeirra þátt.

Innskráningarþjónustan. Þar er hægt að nota Íslykil annars vegar og rafræn skilríki í síma og á snjallkorti hins vegar. Íslykill er gefinn út af Þjóðskrá. Markmið innskráningarinnar er að bjóða upp á eina samræmda leið til innskráningar inn á einstaklingsmiðaða þjónustuvefi.

Mannanöfn. Hér eru skráð öll nöfn sem heimiluð eru á Íslandi samkvæmt ákvörðun mannanafnanefndar.

Meðmælendalistar. Kerfið þjónar þeim sem bjóða sig fram í kosningum og þurfa að safna meðmælendum. Þar geta framboð skráð meðmælendur sína rafrænt á Ísland.is og fengið jafnóðum upplýsingar um fjölda gildra meðmæla miðað við skráningu á pappírslista, en ekki eftir á eins og tíðkast hefur. Kerfið var fyrst notað í forsetakosningunum 2016 og hefur verið í notkun síðan.

Opinber þjónusta. Hér er að finna upplýsingar um opinbera þjónustu sem sett er þannig fram að notendur þurfi ekki að vita fyrirfram hver veitir þjónustuna.