Um lögheimilistengsl

Hvað eru lögheimilistengsl (áður kallað fjölskyldunúmer)?

Með lögum um skráningu einstaklinga nr. 140/2019 var hugtakinu fjölskyldunúmer breytt í lögheimilistengsl en skv. sömu lögum er lögheimilistengsl skilgreint sem auðkennisnúmer fyrir þá einingu í þjóðskrá sem tilgreinir sameiginlegt lögheimili ákveðins hóps einstaklinga.

Frá því að þjóðskrárkerfið var tekið í notkun árið 1986 hafa einstaklingar verið tengdir saman í þjóðskrá með svokölluðu fjölskyldunúmeri. Fjölskyldunúmerið hefur verið notað á margvíslegan hátt í gegnum tíðina, t.d. við tölfræðiúrvinnslu hjá Hagstofu Íslands og í tengslum við skatta- og almannatryggingamál. Fjölskyldunúmerið þjónar enn í dag þeim tilgangi sem því var upphaflega ætlað þ.e. að vera samtenging á milli einstaklinga á lögheimili, en því var aldrei ætlað að veita upplýsingar um hverjir væru foreldrar barns né hverjir fara með forsjá þess.

Fjölskyldunúmer í þjóðskrárkerfinu virkar á þann hátt að hver fullorðinn einstaklingur hefur sitt eigið fjölskyldunúmer í þjóðskrá, nema ef viðkomandi er giftur eða í sambúð, þá hafa þeir einstaklingar sameiginlegt fjölskyldunúmer, sem er kennitala þess sem eldri er. Börn tengjast fjölskyldunúmeri þess fullorðna einstaklings sem þeir búa hjá, þ.e. þeim fullorðna einstakling sem barn er skráð með lögheimili hjá, og ef um er að ræða tvo fullorðna einstaklinga sem eru í skráðri sambúð eða hjúskap þá hefur barnið sameiginlegt fjölskyldunúmer þeirra. Eftir að einstaklingur nær 18 ára aldri þá slitna öll tengsl hans við fyrra fjölskyldunúmer og kennitala viðkomandi verður fjölskyldunúmer hans.

Til frekari útlistunar hafa kennitölur verið notaðar sem fjölskyldunúmer einstaklinga á eftirfarandi hátt frá því þær voru teknar í notkun árið 1986:

  • Hjón eða sambúðaraðilar skráðir á sama lögheimili án barna undir lögaldri. Kennitala þess sem er eldri er fjölskyldunúmerið (fram til 1997 var fjölskyldunúmer ávallt kennitala eiginmanns eða sambýlismanns).
  • Hjón eða sambúðaraðilar skráðir á sama lögheimilið auk barna undir lögaldri. Kennitala þess sem er elstur er fjölskyldunúmerið. Lögráða einstaklingur sem býr á sama lögheimili og foreldrar hefur eigið fjölskyldunúmer, sem er kennitala viðkomandi (fram til 1997 var fjölskyldunúmer ávallt kennitala eiginmanns eða sambýlismanns).
  • Lögráða einstaklingur sem er ekki í hjúskap eða sambúð á tilteknu lögheimili án barna. Fjölskyldunúmer hvors einstaklings um sig er kennitala. (Tveir lögráða einstaklingar sem búa á sama lögheimili en eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð bera ekki sama fjölskyldunúmer).
  • Lögráða einstaklingur á tilteknu lögheimili auk barna sem skráð eru á sama lögheimili. Kennitala einstaklingsins verður fjölskyldunúmer hans og barnanna.

Af hverju er ég ekki skráð sem foreldri barns míns í þjóðskrá?

Þjóðskrárkerfið er með þeim hætti að vensl á milli einstaklinga eru skráð með takmörkuðum hætti og taka t.a.m. ekki til fjölskyldu- og skyldleikatengsla né veitir upplýsingar um forsjá barna. Börn eru hins vegar tengd kennitölu þess einstaklings sem er elstur á því lögheimili sem þau búa á þ.e. svokallað fjölskyldunúmer.

Dæmi: Sigga á foreldra sem heita Jón og Gunna. Jón fer einn með forsjá Siggu, en hún býr hjá Stínu frænku og er skráð til lögheimilis hjá henni. Hvergi í miðlun til opinberra aðila né í þeim kerfum sem styðjast við þjóðskrá sést að Jón og Gunna eru foreldrar Siggu, né að Jón fari einn með forsjá hennar. Þar sem Sigga er yngri en 18 ára þá getur hún ekki staðið „stök“ í þjóðskrárkerfinu og verður að tengjast einstaklingi sem er eldri en 18 ára. Hún er því tengd þeim einstaklingi sem er elstur á því lögheimili sem hún býr á. Í tilviki Siggu þá er hún tengd á kennitölu maka Stínu frænku þar sem hann er elstur á því lögheimili. Sigga, Stína frænka og Lóa dóttir Stínu frænku eru allar tengdar á kennitölu maka Stínu. Kennitala makans er fjölskyldunúmer þeirra. Í þessu felst þó alls ekki að Stína frænka né maki hennar fari með forsjá Siggu, það gerir hins vegar Jón pabbi hennar.

Af hverju sjá opinberar stofnanir og t.d. bankar ekki að ég fer með forsjá barns míns?

Upplýsingar um forsjá barna eru ekki skráðar í þjóðskrá og er þar af leiðandi ekki miðlað til ytri aðila. Þjóðskrá berast upplýsingar um forsjá barna frá þar til bærum stjórnvöldum en þær upplýsingar eru ekki tiltækar til miðlunar. Þjóðskrá veitir upplýsingar um forsjá barna á grundvelli fyrirliggjandi gagna með útgáfu vottorða.

Af hverju fær stjúpforeldri markpóst og tilkynningar um barn mitt en ekki ég sem er foreldri og fer með forsjá barnsins?

Ástæðan er sú að þú og barn þitt eru skráð á fjölskyldunúmer maka þíns. Þar sem tilgangur fjölskyldunúmers er hvorki að birta tengsl barna við foreldra né forsjáraðila þá ætti ekki að ganga út frá því að sá sem er á bak við fjölskyldunúmer einstaklings, þ.e. sá sem er elstur á hverju lögheimili eigi að fá allan póst, skilaboð eða upplýsingar er varða börn á hverju lögheimili. Ákvörðun um slíkt er alfarið í höndum sendanda og þess sem birtir upplýsingarnar. Þjóðskránni er miðlað til fjölda fyrirtækja og stofnana og getur Þjóðskrá ekki hlutast til um hvernig skráin er nýtt til póstsendinga, upplýsingagjafar eða ákvarðanatöku um réttindi og skyldur einstaklings svo lengi sem notkunin fer ekki gegn samningsákvæðum eða lögum sem gilda um miðlun þjóðskrár.