Athugið!
Allir einstaklingar eru skráðir í trúfélag, lífsskoðunarfélag, utan trúfélaga og lífsskoðunarfélaga eða í ótilgreint trú- eða lífsskoðunarfélag við nýskráningu í þjóðskrá, s.s. við skráningu barns í þjóðskrá eða við skráningu erlends ríkisborgara til lögheimilis hér á landi.

Tilgangur skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélög í þjóðskrá er að fá tölfræðilegar upplýsingar um fjölda einstaklinga í tilteknu trú- eða lífsskoðunarfélagi miðað við 1. desember ár hvert. Þannig er unnt að reikna út framlög ríkisins (svokölluð sóknargjöld) til félaganna.

Hver einstaklingur getur lögum samkvæmt einungis verið skráður í eitt skráð trú- eða lífsskoðunarfélag í þjóðskrá á sama tíma.

Einungis er heimilt að skrá einstaklinga í trú- eða lífsskoðunarfélög sem hafa hlotið skráningu samkvæmt lögum.

Óski einstaklingur eftir því að skrá sig í trú- eða lífsskoðunarfélag sem ekki hefur verið skráð er hann skráður í ótilgreint trú- eða lífsskoðunarfélag.

Með skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag í þjóðskrá felst ekki að Þjóðskrá haldi sérstakt félagatal trú- eða lífsskoðunarfélaga heldur er einungis um að ræða skráningu á því hvert sóknargjöld skuli renna samkvæmt ákvæðum laga um sóknargjöld nr. 91/1987 og lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög nr. 108/1999.

Samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög skal einstaklingur tilkynna um inngöngu eða úrsögn úr trú- eða lífsskoðunarfélagi til þess félags sem í hlut á.

Trú- og lífsskoðunarfélög

Listi yfir skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög

Sjá nánar