Allir íslenskir ríkisborgarar og einstaklingar með skráð lögheimili á Íslandi geta óskað eftir breyttri skráningu á kyni sínu. Samhliða breyttri skráningu á kyni, á einstaklingur rétt á að breyta nafni sínu. Börn, yngri en 15 ára, geta með stuðningi forsjáraðila sinna, óskað eftir breyttri skráningu á kyni og breyttu nafni. Ef börn, yngri en 15 ára, njóta ekki stuðnings forsjáraðila sinna, annars eða beggja, geta þau óskað eftir því að sérfræðinefnd taki mál þeirra fyrir.

Athugið að breyting á skráningu kyns og samhliða nafnbreyting er aðeins heimiluð einu sinni, nema sérstakar ástæður séu til annars. Þessi takmörkun á ekki við um einstaklinga undir 18 ára aldri.

Frá  6. janúar 2021 var hægt að óska eftir hlutlausri skráningu kyns í þjóðskrá. Í samvinnu við Samtökin ´78 var ákveðið að einstaklingar sem óska eftir hlutlausri skráningu kyns í þjóðskrá eru skráðir „Kynsegin/annað“. Þetta heiti er talið ná sem mestri sátt innan hinsegin samfélagsins og að flestir einstaklingar geti samsvarað sig því.

Óski einstaklingur eftir því að fá útgefin ný persónuskilríki (vegabréf, ökuskírteini, nafnskírteini o.fl.) í kjölfar breytinga á skráningu kyns og nýju nafni, verður viðkomandi að sækja um ný og greiða fyrir.

Einstaklingur, sem skráður er í þjóðskrá en býr erlendis eða hefur búið þar og fengið leiðréttingu á kyni sínu í viðkomandi landi, getur óskað þess að Þjóðskrá skrái þessar breytingar í þjóðskrá. Þjóðskrá metur gildi framlagðra gagna umsækjanda, m.a. hvort nafnbreyting og/eða leiðrétting á kyni hafi verið gerð samkvæmt heimild þar til bærra stjórnvalda eða dómstóla.

Staðfesting forsjáraðila á breyttri skráningu kyns

Í tilviki barna yngri en 15 ára þarf staðfestingu forsjáraðila til að hægt sé að staðfesta breytta skráningu kyns.

Staðfestingareyðublað forsjáraðila

Skoða skráningu í þjóðskrá á Ísland.is

Á mínum síðum á Ísland.is má sjá skráð yfirlit yfir skráð kyn og fleira samkvæmt þjóðskrá.

Mínar síður á Ísland.is

Lög um kynrænt sjálfræði

Lög 80/2019 á vef Alþingis

Kröfur til skjala

Sjá leiðbeiningar um kröfur til skjala frá erlendum yfirvöldum og öðrum aðilum vegna óska um breyttrar skráningar.

Lesa nánar