Dulið lögheimili
Einstaklingur og fjölskylda á sama lögheimili getur óskað eftir því að fá lögheimili sitt dulið. Í því felst að lögheimili sé ekki miðlað til annarra en tiltekinna opinberra aðila.
Einstaklingur sem óskar eftir því að lögheimili hans og fjölskyldu hans sé dulið þarf að sýna fram á það með staðfestingu frá lögreglustjóra að hann og fjölskylda hans sé í hættu. Beiðni um dulið lögheimili getur einnig komið frá lögreglustjóra. Því er best að leita fyrst til lögreglunnar sem sendir Þjóðskrá staðfestinguna telji þeir ástæðu til þess að dylja lögheimili viðkomandi.
Dulið lögheimili getur aðeins gilt til eins árs í senn. Sækja þarf um framlengingu fyrir lok gildistíma.
Heimild fyrir að hafa lögheimili dulið skal ekki vara lengur en þörf er á. Heimildin fellur niður annað hvort að ári liðnu eða fyrr ef hættan er liðin hjá.
Athygli er vakin á því að vegna tæknilegra annmarka er að svo stöddu aðeins hægt að dylja lögheimili á þann hátt að viðkomandi aðili er skráður með ótilgreint lögheimili í tilteknu sveitarfélagi. Slík skráning getur valdið ákveðnum óþægindum t.d. varðandi það að fá sendan til sín póst, þegar stofna á bankareikning eða sækja um lán.