Erlendir stafir
Erlendir bókstafir eru ekki skráðir í þjóðskrá, hvorki nafn né heiti á fæðingarstað. Til erlendra staftákna teljast öll staftákn sem ekki eru í íslenska stafrófinu sbr. 4 kafla ÍST 130:2004 og íslenskt stafróf.
Íslenskt stafróf: a, á, b, c, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, q, r, s, t, u, ú, v, w, x, y, ý, z, þ, æ, ö
Í þessu felst jafnframt að stafmerki (diacritical Marks) sem tilheyra ekki íslenska stafrófinu eru ekki skráð í þjóðskrá hvort sem heldur er í nafnasvæði eða fæðingarstað. Stafmerki eru t.d. yfirsett (å ä ô Ť à), undirsett (ḙ Ļ ţ) og (hliðsett ʼn Ľ ť) og fleiri en eitt merki geta fylgt tilteknum staf, t.d. yfir- og undirsett merki í senn (ặ). Stafir geta verið strikaðir (Ł Ŧ) og strípaðir (ı) og til eru staflímingar (ij oe). (Heimild: Stafróf og stafrófsröð. (Apríl 2011). Árnastofnun Magnússonar). Skráning nafna og staða sem innihalda stafi og stafmerki sem ekki eru í íslenska stafrófinu byggir á umritunarreglum í samræmi við staðlana Latin-1(ISO/IEC JTC1 8859-1) og ICAO Doc.9303 Part Machine Readable Passports, Volume 1, Appendix 9 to Section IV (A). Dæmi: Å er ritað AA, Ä er ritað AE og Œ er ritað OE. Undantekning frá notkun áðurnefnda staðla við umritun er danskt Ø en það er umritað í Ö í stað O.
Ávallt hefur verið lögð áhersla á að skrá einungis stafi í íslenska stafrófinu í þjóðskrá. Hins vegar eru nokkur dæmi um að vikið hafi verið frá þeirri meginreglu frá því að skráin var tölvuvædd árið 1986 og finnast því nokkur stafmerki í skránni sem ekki eru í íslenska stafrófinu. Slík frávik eru þó afar fá miðað við fjölda nafnafærslna í þjóðskrá. Núverandi verklagsreglur heimila ekki frávik frá ofangreindum reglum. Þjóðskrá styður ekki við aðrar stafatöflur en íslenskar þ.e. ekki eru til skilgreindar færslur fyrir erlend tákn þannig að hvert þeirra eigi einkvæma tölu (sæti) og heiti. Skilgreindur vörpunarstaðall þ.e. hvernig túlka eigi erlend stafatákn og varpa þeim í stafatöflu þannig að röðun og endurheimt verði rétt eða skilvirk er ekki til staðar.