Nafnritun
Fullt nafn einstaklinga er ávallt skráð í þjóðskrá við nýskráningu nafns og eru engin takmörk hversu langt nafn getur verið. Fullt nafn einstaklings er samsett úr eiginnafni/nöfnum, millinafni ef við á og kenninafni/nöfnum. Einnig er alltaf skráð birtingarnafn sem er takmarkað við 44 stafbil. Birtingarnafni er miðlað áfram til endanotenda þjóðskrár og er það nafnið sem opinberir aðilar og einkaaðilar eiga að geta séð í sínum kerfum. Fullt nafn er sett í vegabréf, nafnskírteini, fæðingarvottorð og önnur vottorð útgefin af Þjóðskrá. Þar sem notendur þjóðskrár hafa ekki allir aðlagað kerfi sín að 44 stafbilum þá er ennþá nauðsynlegt að skrá og miðla nafni sem eingöngu inniheldur 31 stafbil (stytt nafn).
Rökin fyrir birtingarnafni eru m.a. að samræmi sé í miðlun á nafni einstaklings þ.e. að miðlarar og endanotendur stytti ekki nöfn í eigin upplýsingakerfum með mismunandi hætti í tilvikum þar sem nafn er of langt eða t.d. þegar birta á nafn á skilríkjum, bréfum, greiðslukortum o.s.frv. Sjaldgæft er að nöfn einstaklinga séu lengri en 44 stafbil í dag enda takmarkað hversu mörg nöfn einstaklingar geta borið samkvæmt gildandi lögum um mannanöfn.
Ef stytta þarf nafn vegna skráningar á birtingarnafni og/eða styttu nafni sbr. ofangreint þá er slíkt gert að höfðu samráði við hlutaðeigandi og í samræmi við reglur nr. 1025/2011 um skráningu nafna. Heimilt er að stytta nafn í t.d. Guðmundsd. og Jónss. ef nafn er umfram 31 stafbil þ.e. í því svæði takmarkast við 31 stafbil.
Fram til ársins 1986 voru stafbil fyrir nöfn einungis 23 bil og fram til nóvember 2013 var að hámarki skráð 31 stafbil. Það er því hugsanlegt að nöfn einstaklinga séu ekki fullskráð í þjóðskrá þótt það sé mögulegt. Hægt er að óska eftir breytingu á nafnritun vegna þessa.