Kjörskrá og kosningaréttur

Er ég á kjörskrá?

 • Þjóðskrá Íslands leysir skv. lögum nr. 54/1962 hlutverk sitt vegna kjörskrár með því að láta sveitarstjórnum í té stofn að kjörskrá þegar forseta-, alþingis- og sveitarstjórnarkosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að fara fram.

  Samkvæmt ákvæðum kosningalaga eiga sveitarstjórnir að láta kjörskrá liggja frammi á skrifstofum sínum til sýnis. Þar geta kjósendur farið yfir og kannað hvort þeir eru á kjörskrá. Þjóðskrá Íslands opnar í samráði við dómsmálaráðuneyti aðgang að vef, kjósendum til hagræðingar, þar sem hver og einn getur kannað hvort hann er á kjörskrá. Á vefnum birtast að öllu leyti sömu upplýsingar og er að finna í kjörskrám sem liggja fyrir hjá sveitarstjórnum. Þar geta kjósendur kannað hvar þeir eru á kjörskrá í komandi kosningum. Þegar slegin er inn kennitala kemur upp nafn, lögheimili og sveitarfélag. Yfirleitt birtast einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild. Rétt er að geta þess að ekki er verið að fletta upp í þjóðskrá heldur er flett upp í kjörskrám. Strax af loknum kosningadegi er vefurinn tekinn niður og þar með er lokað fyrir aðgang að kjörskránni. 

  Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili þremur til fimm vikum fyrir kjördag, en tímabilið fer eftir því hvort um er að ræða, forseta-, alþingis- eða sveitarstjórnarkosningar og þjóðaratkvæðagreiðslur. Flutningur lögheimilis eftir uppgefinn tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá. Hver sem er getur gert athugasemdir og sent til sveitarstjórnar um að nafn eða nöfn einhverra kjósenda vanti á kjörskrá eða þeim sé þar ofaukið. Heimilt er að gera slíkar athugasemdir til sveitarstjórnar fram á kjördag. 

   
 • Allir íslenskir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili erlendis skemur en 8 ár (talið frá 1. desember árið áður en kosningar eru haldnar) eru sjálfkrafa með kosningarétt á Íslandi. Þeir þurfa að vera orðnir 18 ára á kjördag og hafa einhvern tíma átt lögheimili á Íslandi.

  Íslenskir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili erlendis lengur en 8 ár (talið frá 1. desember árið áður en kosningar eru haldnar) verða að sækja um til Þjóðskrár Íslands um að verða teknir á kjörskrá. Fullnægjandi umsókn þarf að hafa borist Þjóðskrár Íslands fyrir 1. desember árinu áður en kosningar eiga að fara fram.   

  Umsókn þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Umsækjandi verður að hafa íslenskan ríkisborgararétt.
  • Umsækjandi þarf að vera orðinn 18 ára á kjördag.
  • Umsækjandi þarf að hafa átt lögheimili á Íslandi.

  Uppfylli umsókn ofangreind skilyrði verður viðkomandi einstaklingur tekinn á kjörskrá næstu 4 ár á eftir. Vakin er athygli á að sérstakar reglur gilda um fresti til að senda inn umsókn. 

  Reglur þessar gilda um kosningar til Alþingis og með sama hætti um kjör forseta Íslands og þjóðaratkvæðagreiðslur en ekki um kosningar til sveitarstjórna.

  Eyðublað A-290 Íslendingur búsettur erlendis tekinn á kjörskrá

 • Erlendir ríkisborgarar eiga ekki kosningarrétt við kjör forseta Íslands, við alþingiskosningar eða þjóðaratkvæðagreiðslur og eru því ekki á kjörskrárstofni. Eina undantekningin eru danskir ríkisborgarar, sem voru búsettir á Íslandi 6. mars 1946 eða einhvern tíma á síðustu 10 árum fyrir þann tíma. Þeir eiga kosningarrétt samkvæmt lögum nr. 85/1946.
  Þegar kosið er til sveitarstjórna gilda aðrar reglur um kosningarétt erlendra ríkisborgara

  • Danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili á Íslandi samfellt lengur en 3 ár fyrir kjördag eiga kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum.
  • Aðrir erlendir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili á Íslandi samfellt lengur en 5 ár fyrir kjördag eiga einnig kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum.
 • Skráning námsmanna á Norðurlöndum á kjörskrá.

  Þjóðskrá Íslands hefur breytt fyrirkomulagi vegna skráningar námsmanna á Norðurlöndunum á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar. Breytingin felast í því að umræddir námsmenn þurfa nú að tilkynna það rafrænt til Þjóðskrár Íslands að þeir séu námsmenn til þess að vera teknir á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningarnar.

  Tilkynningunni þarf að fylgja:

  •  Staðfesting á námsvist.

  Gert er ráð fyrir því að makar og skyldulið námsmanna tilkynni sig á sama hátt með tilvísun í viðkomandi námsmann. Senda þarf inn nýja tilkynningu fyrir hverjar sveitarstjórnarkosningar.

  Búið er að opna fyrir tilkynningarnar. Mikilvægt er að sækja um sem allra fyrst en mögulegt verður þó að senda inn tilkynningu fram til 25. maí nk., daginn fyrir kjördag

  Eyðublað K-101 Námsmaður á Norðurlöndum tekinn á kjörskrá

 

Athugið

01

Íslenskir ríkisborgarar  með skráð lögheimili í útlöndum skemur en 8 ár eru á kjörskrá. Á við í Alþingis- og forsetakosningum

02

Íslenskir ríkisborgarar  með skráð lögheimili í útlöndum lengur en 8 ár eru ekki á kjörskrá og verða að sækja um fyrir 1. desember. Á við í Alþingis- og forsetakosningum

03

Vegna sveitarstjórnarkosninga:  Íslenskir ríkisborgarar með lögheimili í útlöndum þurfa að hafa skráð lögheimili á Íslandi þremur vikum fyrir kjördag. Námsmenn með lögheimili á Norðurlöndum halda kosningarétti en þurfa að tilkynna ÞÍ að þeir skuli teknir á kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar

04

Danskir, finnskir, norskir og sænskir  ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag hafa kosningarétt í sveitarstjórnarkosningum sem og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag