Þjóðskrá Íslands hefur hafist handa við að skrá með rafrænum hætti tengsl milli barna og foreldra með það að markmiði að þær upplýsingar verði hluti af þjóðskránni.
Foreldrar og börn hafa hagsmuni af því að í þjóðskrá séu skráð tengsl þeirra á milli einkum vegna þess að réttarstaða foreldra og barna gagnvart opinberum aðilum er ekki ávallt háð hjá hvoru foreldri barn er með skráð lögheimili hjá.
Það er því brýn nauðsyn á að í þjóðskrá séu skráðar upplýsingar um vensl barna við foreldra og þá aðila sem fara með forsjá barna.
Upplýsingarnar eru aðgengilegar á "Mínum síðum" foreldra barna á Ísland.is og nú eru birtar þar upplýsingar um börn sem fædd eru 2009 og síðar. Fyrir lok ársins 2016 er stefnt að því að birta upplýsingar um börn fædd 2007 og síðar.
Verkefnið er umfangsmikið þar sem upplýsingar um foreldra barna hafa hingað til ekki verið skráðar rafrænt í þjóðskrá heldur varðveittar á formi fæðingartilkynninga, faðernisviðurkenninga, ættleiðingarskýrslna og dómsúrlausna. Þar að auki geta gögn á við tilkynningar um hjónavígslur og sambúð haft áhrif á feðrun barna. Nú eru um 96 þúsund börn skráð í þjóðskrá og þarf að yfirfara skráningu hvers þeirra með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum áður en unnt er að tengja barn við foreldri.
Vakin er sérstök athygli á að þrátt fyrir að Þjóðskrá Íslands hafi hafist handa við að safna í gagnagrunn upplýsingum um foreldra barna með þessum hætti, þá hefur ekki verið ráðist í það verkefni að skilgreina miðlun á þessum upplýsingum. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvenær öll börn 18 ára og yngri verða tengd við foreldra sína. Öll börn eru nú samhliða nýskráningu í þjóðskrá tengd við foreldra, en skráning tengsla eldri barna við foreldra mun taka nokkur ár enda er um að ræða skráningu sem krefst varfærni og kunnáttu við lestur og túlkun fyrirliggjandi gagna.
Það er stór áfangi að söfnun þessara upplýsinga er hafin, en að svo stöddu er hvorki hægt að fullyrða hvenær vinnunni ljúki né hvenær hafist verði handa að skilgreina næsta verkefni sem lýtur að miðlun upplýsinganna og samþættingu þeirra í þjóðskrá, sem ræðst m.a. af fjármagni.