Miðvikudaginn 7. júní 2017 stóð Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og Akureyrarstofa fyrir málþingi sem hafði það markmið að hvetja stofnanir og fyrirtæki til að skoða þau tækifæri sem felast í að styrkja starfsstöðvar sínar á landsbyggðinni. Má þar nefna sem dæmi dreifða starfsemi með sérhæfingu og þekkingu á völdum stöðum eða með því að skilgreina störf án staðsetningar.
Forstjóri Þjóðskrár Íslands, Margrét Hauksdóttir, flutti erindi um uppbyggingu starfsstöðvar Þjóðskrár Íslands á Akureyri. Þá lýsti Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri þeirri þróun sem orðið hefur frá því að embætti skattstjóra á landinu voru sameinuð undir ríkisskattstjóra.
Frá árinu 2000 hefur starfsmönnum ÞÍ á Akureyri fjölgað úr 5 í 17. Svipuð þróun hefur verið hjá ÞÍ og embætti ríkisskattstjóra í þá átt að starfsstöðvar úti á landi færast frá því að sinna nærumhverfi eða sínu svæði yfir í að sinna sérhæfðum verkefnum á landsvísu. Í báðum erindum kom fram að rafræn stjórnsýsla er forsenda þess að þjónusta og skipulag gangi vel fyrir sig og að tilvist og uppbygging Háskólans á Akureyri skipti sköpum í þeim árangri sem hefur náðst við eflingu starfstöðvanna á Akureyri.
Lokaerindi flutti Svavar Pálsson sýslumaður Norðurlands eystra og sagði hann frá stefnu dönsku ríkisstjórnarinnar að flytja sérvaldar stofnanir frá Kaupmannahöfn í smærri bæi á Jótlandi og Fjóni.
Umræður voru góðar í lok fundar og ein niðurstaða hans var að margar vel heppnaðar fyrirmyndir séu til staðar sem og þekking á því hvernig standa megi að fjölgun og eflingu starfsstöðva á landsbyggðinni en stefnu stjórnvalda skorti í þessum efnum.