Vefurinn skra.is er einn af fimm vefjum sem tilnefndir eru til verðlauna í flokki opinberra vefja.
Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins, haldin með það að markmiði að efla hann, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða. Verðlaunin fyrir 2017 verða afhent þann 26. janúar 2018 við hátíðlega athöfn í Hörpu.
Nýr vefur skra.is opnaði 1. febrúar 2017 og var mikil vinna lögð í að gera hann sem bestan úr garði. Meðal annars var allt efni endurskrifað og mikil áhersla á rafræna þjónustu og gott aðgengi fatlaðra.
Þess má geta að vefurinn skra.is var einnig í hópi fimm bestu ríkisvefja í könnuninni „Hvað er spunnið í opinbera vefi 2017?“ og fékk 99 stig af 100 mögulegum.