Íbúum Reykjavíkur fjölgaði um 663 einstaklinga frá 1. desember 2017 til 15. apríl 2018. Ekki fjölgaði um jafnmarga einstaklinga á þessu tímabili í neinu öðru sveitarfélagi en hlutfallsleg aukning var um 0,5% í höfuðborginni. Kópavogur var með næst mestu fjölgun eða 387 einstaklinga og síðan Reykjanesbær með 342 einstaklinga. Sjá töflu yfir fjölda íbúa eftir sveitarfélögum.
Mest hlutfallsleg aukning íbúa á tímabilinu var í Árneshreppi eða um 9,8%. Íbúum í þessum fámennasta hreppi landsins fjölgaði um 4 einstaklinga eða úr 41 í 45. Næst mest hlutfallsleg fjölgun var í Breiðdalshreppi um 4,4% eða úr 183 einstaklingum í 191. Sveitarfélög á landinu eru 74 og í 24 þeirra varð fækkun á umræddu tímabili.
Fjölgun varð í öllum landshlutum nema einum. Hlutfallslega mest var fjölgunin á Suðurnesjum eða um 1,5% og á Suðurlandi um 0,8%. Eina fækkunin í landshluta var á Norðurlandi eystra eða um 0,1% sem er fækkun um 35 einstaklinga.
Taflan sýnir hlutfallslegar breytingar á mannfjölda eftir landsvæðum frá 1. desember 2017 til 15. apríl 2018.