Við kynningu á nýjum íslenskum vegabréfum í byrjun febrúar sl. kom fram að Landamærasjóður Evrópusambandsins fjármagnar hluta af stofnkostnaðinum við þau. Í dag var formlega gengið frá samningum um þessa fjármögnun. Verkefnin snúast um að tryggja öryggi rafræns hluta vegabréfanna til langs tíma, bæði við útgáfu þeirra og lestur á landamærastöðvum. Sjóðurinn leggur til 146 milljónir og mótframlag dómsmálaráðuneytisins er 39 milljónir. Verkefnin eru þessi:
- Innleiðing á traustari aðferð við lestur rafrænna vegabréfa (SAC).
- Öflugri vottorð til að viðhalda trausti á rafrænum hluta vegabréfanna (CSCA-PKI).
- Öflugri vottorð til að verja fingraför sem geymd eru í rafrænum vegabréfum (CVCA-PKI).
- Kerfi til að miðla trausti á rafrænum vegabréfum til landamærastöðva innanlands og utan (PKD).
- Kerfi til að veita aðgang að fingraförum í vegabréfum í samræmi við evrópskar reglur þar um (SPOC).
Fyrstu fjórum verkefnunum er lokið og gert er ráð fyrir að því síðasta ljúki á miðju þessu ári.
Á myndinni eru frá dómsmálaráðuneytinu Bergur Sigurjónsson, rekstrarstjóri, Árni Gíslason sérfræðingur og Pétur U. Fenger skrifstofustjóri og frá Þjóðskrá Íslands Margrét Hauksdóttir forstjóri, Þorvarður K. Ólafsson fagstjóri skilríkjamála og Jón Ingi Einarsson, fjármálastjóri.