Þjóðskrá Íslands hefur birt skýrslu um fasteignamat 2020. Í skýrslunni er hægt að lesa sér til um aðferðafræðina sem liggur að baki fasteignamati.
Skýrslan er með hefðbundnu sniði eins og síðustu ár þar sem lýst er ítarlega þeim aðferðum sem notaðar eru við gerð fasteignamats, þar á meðal aðferðum við útreikning á íbúðareignum, sumarhúsum og atvinnuhúsnæði. Þá er sérstakur kafli um helstu breytingar á milli ára.
Fyrir fasteignamatið 2020 var mikil vinna lögð í endurskoðun á matssvæðum fyrir íbúðareignir og sumarhús ásamt því að bæta kortagerð matssvæða, en matssvæði hafa mikla þýðingu við útreikning á fasteignamati. Ítarleg kort af matssvæðum fyrir allar helstu tegundir fasteigna má finna aftast í skýrslunni.
Á vef Þjóðskrár Íslands má einnig finna kort í hærri upplausn og ítarlegri gögn um fasteignamatið.