Þann 1. janúar síðastliðinn tóku gildi lög um skráningu einstaklinga nr. 140/2019 og taka þau við af eldri lögum um þjóðskrá og almannaskráningu sem voru frá árinu 1962.
Með lögunum er verið að færa skráningu einstaklinga í nútímalegt horf, tryggja að almannaskráning sé í samræmi við þarfir samfélagsins og festa í lög verkefni sem stofnunin sinnir sem hingað til hafa einungis verið framkvæmd á grundvelli verkferla og minnisblaða.
Helstu breytingarnar eru eftirfarandi:
- Eingöngu opinberir aðilar geta sótt um kerfiskennitölu fyrir erlenda ríkisborgara sem þurfa á henni að halda vegna sérstakra hagsmuna hér á landi.
- Frá og með 1. janúar 2021 skulu kerfiskennitölur vera aðgreindar með sýnilegum hætti frá kennitölum einstaklinga í þjóðskrá.
- Frá og með 1. janúar 2021 verður heildarafhending þjóðskrár óheimiluð.
- Frá og með 1. janúar 2022 getur Þjóðskrá Íslands, ef ríkar ástæður eru fyrir hendi, heimilað einstaklingi sem með rökstuddum hætti óskar eftir því, og eftir atvikum með framlagningu gagna þar um, að upplýsingum um nafn og/eða lögheimili eða aðsetur hans og nánustu fjölskyldu verði ekki miðlað úr þjóðskrá.