Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 2,1% frá yfirstandandi ári og verður 9.429 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2021. Þetta er umtalsvert minni hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan þegar fasteignamat hækkaði um 6,1% á landinu öllu.
Mest hækkun á Vestfjörðum
Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 2,2% en um 1,9% á landsbyggðinni. Þar af er mest hækkun á Vestfjörðum eða 8,2%, um 6,5% á Norðurlandi vestra, 3,5% á Austurlandi og um 2,2% á Suðurlandi, 1,9% á Norðurlandi eystra, um 0,4% á Vesturlandi, og lækkun um 0,5% á Suðurnesjum.
Af einstaka bæjarfélögum hækkar heildarfasteignamat mest á Ísafirði eða um 11,2%, um 8,8% í Akrahreppi og 8,5% í Tálknafjarðarhreppi og á Blönduósi. Mest lækkun er í Skorradalshreppi og Sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamatið lækkar um 3,6%.
Almennt eru litlar breytingar á aðferðarfræði fasteignamats á milli ára. Aðferð við lóðarmat var endurskoðuð auk þess sem hætt er að nota sérstaka matsaðferð á búgarða. Einnig er verið að endurskoða hlunnindamat jarða og færa það til nútímahorfs. Að öðru leyti er helsta breytingin hagnýting á gervigreind sem styrkir núverandi aðferðarfræði og líkanagerð við fasteignamat.
Bætt framsetning á vef
Á vef Þjóðskrár Íslands www.skra.is má fletta upp breytingum á fasteignamati milli ára auk þess sem aukin áhersla hefur verið lögð á myndræna og notendavæna framsetningu á nýju fasteignamati. Þannig geta eigendur fasteigna og aðrir bæði kynnt sér breytingar á einstökum eignum sem og þróun á milli ára eftir landsvæðum og mismunandi tegundum eigna. Upplýsingar um breytingar á fasteignamati eru nú settar fram á kortagrunni en auk þess hefur verið þróuð ný vefsjá fyrir matssvæði íbúðarhúsnæðis, sumarhúsa og atvinnuhúsnæðis sem sýnir staðsetningu matssvæða og breytingar á milli ára.
Íbúðarmat hækkar mest í Akrahreppi
Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 2,3% á milli ára og verður alls 6.511 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 2,2% á meðan fjölbýli hækkar um 2,4%. Almennt er hækkun á íbúðarmati á höfuðborgarsvæðinu 2,4% en 2,1% á landsbyggðinni.
Fasteignamat íbúða hækkar mest í Akrahreppi en þar hækkar íbúðarmatið um 17,8%, á Ísafirði um 15,5% og í sveitarfélaginu Ölfusi um 15,2%. Mestu lækkanir á íbúðamati eru í sveitarfélaginu Vogum þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 5,2%, Í Vopnafjarðarhreppi lækkar matið um 3,6% og í Reykjanesbæ þar sem fasteignamat íbúða lækkar um 3,3%.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 1,7% á landinu öllu; um 1,6% á höfuðborgarsvæðinu en um 1,9% á landsbyggðinni.
Fasteignamat sumarhúsa lítið breytt að meðaltali
Fasteignamat sumarhúsa fyrir árið 2021 stendur nánast í stað á milli ára þegar litið er á landið í heild en hækkar að meðaltali um 0,1%. Fasteignamat sumarhúsa hækkar mest í sveitarfélaginu Ölfusi eða um 7,7% og um 6,8% í Ásahreppi. Mesta lækkun á fasteignamati sumarhúsa er í Skorradalshreppi og Sveitarfélaginu Vogum þar sem matið lækkar um 4,3% á milli ára.
Nánari upplýsingar um fasteignamat 2021
Eigendur fasteigna geta frá 15. júní nálgast tilkynningarseðil um mat á eignum sínum í pósthólf sitt á www.island.is.
Langflestar fasteignir eru endurmetnar árlega út frá nýjustu matsforsendum og byggir meðal annars á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2020. Það tekur gildi 31. desember 2020 og gildir fyrir árið 2021. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 30. desember 2020.