Fasteignir04. nóvember 2021

Fyrstu kaupendur kaupa 97 fermetra fyrir 45,4 milljónir

Fjöldi fyrstu kaupenda hefur verið yfir 1500 síðastliðna fimm ársfjórðunga. Að meðaltali greiða fyrstu kaupendur mest fyrir íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, eða 51,5 milljónir króna fyrir tæplega 92 fermetra íbúð.

 

Þegar litið er til einstaklinga á 3. ársfjórðungi var fjöldi fyrstu kaupenda 1.562 talsins, sem samsvarar um þriðjungi kaupenda á íbúðamarkaði. Að meðaltali greiddu fyrstu kaupendur 45,4 milljónir króna fyrir 96,9 fermetra íbúð, eða sem nemur 469 þúsund krónum á hvern fermetra.

Í dag greiða fyrstu kaupendur að meðaltali 4 milljónum króna meira fyrir sína fyrstu íbúð en fyrir ári síðan, en meðalkaupverð hefur hækkað úr 41,4 í 45,4 milljónir króna. Á síðastliðnum ársfjórðungi var hækkunin um 700 þúsund krónur.
Mest greiða kaupendur fyrir sína fyrstu eign á höfuðborgarsvæðinu, um 51,5 milljónir króna fyrir 91,8 fermetra íbúð. Til samanburðar er hagkvæmasta verðið á Austurlandi þar sem fyrstu kaupendur greiða að meðaltali 28 milljónir króna fyrir 140 fermetra íbúð.

Á 3. ársfjórðungi var hlutfall fyrstu kaupenda lægst á Norðurlandi vestra eða um 25% allra kaupenda. Hæst var hlutfallið á Vestfjörðum eða um 45%. Athuga þarf að nokkuð fáir samningar geta verið að baki viðskiptum einstakra landshluta á hverjum ársfjórðungi.

Fjöldi fyrstu kaupenda hefur verið yfir 1500 frá þriðja ársfjórðungi 2020 en fjöldi fyrstu kaupenda hafði áður hæst farið í 1427 á öðrum ársfjórðungi 2007.

Ath. Eftir því sem þinglýstir samningar bætast við sem eru með útgáfudag á þriðja ársfjórðungi getur bæst í fjölda samninga sem hefur áhrif á ofangreindar tölur.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um fyrstu kaupendur í Fasteignagátt Þjóðskrár. Tölur fyrir fyrstu kaupendur uppfærast eftir því sem ný gögn berast.



Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar