Nýjar upplýsingar um eignarhald íbúða eru nú birtar í Fasteignagátt Þjóðskrár.
Þar má finna yfirlit sem sýnir hlutfall og fjölda íbúða í eigu einstaklinga eða lögaðila sem eiga annars vegar eina íbúð eða fleiri en eina íbúð. Ef einstaklingur á tvær íbúðir teljast þær báðar til flokksins „Íbúðir í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð“. Yfirlitið nær aftur til ársins 1995. Um er að ræða áramótastöður en fyrir núverandi ár er um að ræða uppfærða stöðu í byrjun hvers mánaðar.
Eins og gögnin sýna þá eru 62,7% íbúða í eigu einstaklinga sem eiga eina íbúð en 20,7% í eigu einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð. Um 14,4% íbúða eru í eigu lögaðila sem eiga fleiri en eina íbúð og 2,2% í eigu lögaðila sem eiga eina íbúð. Sjá má sögulega þróun í gögnum um eignarhald íbúða.
Litið er til íbúða sem eru taldar fullbúnar, þ.e. á matsstigi 7 eða 8.
Gögnin eru uppfærð með sjálfvirkum hætti í byrjun hvers mánaðar.