Fólk16. desember 2021

Gögn um íbúðanúmer, skipta búsetu barna og dulið nafn

Frá og með 1 janúar 2022 mun Þjóðskrá byrja að miðla upplýsingum um íbúðanúmer, skipta búsetu barna og einnig verður hægt að óska eftir að vera með dulið nafn í miðlun. Verður því hægt að vera með dulið nafn og/eða dulið lögheimili í miðlun. Fjölskyldunúmer fær einnig nýtt heiti.

Íbúðanúmer

Hingað til hefur íbúðanúmer ekki verið hluti af þeim lögheimilisupplýsingum sem miðlað er en með lögum um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 skal lögheimili vera skráð í tiltekinni íbúð eða eftir atvikum húsi. Þjóðskrá hefur verið að fanga íbúðarupplýsingar undanfarin fimm ár og eru um 90% einstaklinga með lögheimili á Íslandi skráðir með lögheimili niður á íbúðanúmer. Mikilvægt er að skráning niður á íbúðanúmer sé til staðar til að aðgreina einstaklinga á sama heimilisfangi og skiptir skráningin meðal annars miklu máli fyrir viðbragðsaðila.

Skipt búseta barna

Þann 1.janúar 2022 tekur í gildi nýtt ákvæði barnalaga nr. 76/2003 sem snýr að skiptri búsetu barna. Með ákvæðinu geta forsjáraðilar samið um skráningu á búsetu barns til viðbótar við forsjá og lögheimili. Barn getur þar af leiðandi verið skráð með bæði lögheimili og búsetu heimili. Til að bregðast við ákvæði laganna mun Þjóðskrá byrja að miðla upplýsingum um lögheimilisforeldri og búsetuforeldri barns til viðbótar við tengingu við lögheimilistengsl.

Fjölskyldunúmer fær nýtt heiti - lögheimilistengsl

Ástæðan fyrir breytingunni er að skerpa á því að tilgangur lögheimilistengsla áður fjölskyldunúmer er eingöngu til að tengja saman þá einstaklinga sem halda sama lögheimili en fjölskyldunúmer er ekki staðfesting á fjölskyldutengslum eða forsjá. Þetta hefur valdið miklum misskilningi í ytri kerfum og er mjög algengt víða að þessi tenging sé túlkuð sem staðfesting á forsjá.  
Lögheimilistengsl verða áfram tengd kennitölu þess sem elstur er í hjúskap eða skráðri sambúð. Þannig mun barn geta tengst allt að þrem kennitölum í þjóðskrá - lögheimilisforeldri, búsetuforeldri og lögheimilistengsl. Nánari upplýsingar um lögheimilistengsl er að finna hér 

Dulið nafn

Með lögum um skráningu einstaklinga nr. 140/2019 kemur heimild til einstaklinga, að mjög stífum skilyrðum uppfylltum að mati lögreglunnar, til að hafa nafn sitt og lögheimili dulið í miðlun nema til tiltekinna opinbera aðila. Staðfesting frá lögreglustjóra þarf ávallt að berast með beiðni um dulið nafn og lögheimili og er heimildin til eins árs í senn. Til að bregðast við ákvæði laganna mun Þjóðskrá í tilvikum sem þessum dylja í miðlun nafn og lögheimili einstaklings sem ótilgreint. Þessi breyting getur þá haft í för með sér að viðkomandi fær ekki lengur sendan bréfpóst þar sem fyrirtæki og stofnanir hafa ekki lengur aðgang að nafni og lögheimilisupplýsingum viðkomandi. Raunskráningu einstaklinga verður áfram haldið til haga hjá Þjóðskrá og einstaklingar munu fá útgefið vottorð til að framvísa þegar sýna þarf fram á raunskráningu. 
Vert er að taka fram að frá 1 janúar 2020 hefur Þjóðskrá dulið lögheimili einstaklinga ef slík beiðni hefur borist að uppfylltum skilyrðum, sjá frétt af vef Þjóðskrá, en nú tekur í gildi ákvæði laga að einstaklingur getur einnig fengið heimild til að dylja nafn sitt.

Birt hefur verið ný útgáfa af gervigögnum sem ætluð eru fyrir hugbúnaðarþróun fyrir kerfi þar sem notast er við gögn úr þjóðskrá. Nýja útgáfan tekur tillit til breytinganna. Gervigögnin má finna á opingogn.is


Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar