Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum síðustu daga var brotist inn í tölvukerfi Strætó í lok desember, þar sem tölvuþrjótar komust meðal annars yfir afrit af upplýsingum úr þjóðskrá. Hefur Strætó verið krafið um greiðslu og sætt hótunum um að gögnunum verði lekið verði Strætó ekki við kröfunum.
Breytingar á lögum
Frá og með 1. júní nk. taka ákvæði í lögum nr 140/2019 um skráningu einstaklinga gildi þar sem lagt er bann við að upplýsingum úr þjóðskrá sé miðlað með heildarafhendingu þjóðskrár með ákveðnum undantekningum. Þess í stað verður upplýsingunum miðlað með vefþjónustum og er kallað eftir upplýsingum um tiltekinn einstakling með vefkalli. Með þeim hætti fást upplýsingar um hver skoðar hvaða upplýsingar í þjóðskrá og hvenær. Þannig verður dregið úr hættu á að tölvuþrjótar geti framvegis komist yfir upplýsingar yfir alla íbúa landsins þar sem afhendingin takmarkast við þá einstaklinga sem hver lögaðili hefur þörf á að hafa upplýsingar um.
Miðlun á gögnum úr þjóðskrá
Þjóðskrá vill jafnframt taka fram að lögaðilar sem hafa sótt um að fá heildaraðgang að þjóðskrá þurfa að gera grein fyrir tilgangi slíkrar afhendingar og lagalegum grundvelli notkunar þeirra áður en gögn verða aðgengileg hjá miðlara þjóðskrár. Eins og fram hefur komið þá taka ný lög gildi á árinu og er vinna við þróun í gangi hjá Þjóðskrá til að koma til móts við breytt lagaumhverfi.