Alls voru 226.670 einstaklingar skráðir í þjóðkirkjuna þann 1. júní síðastliðinn samkvæmt skráningu Þjóðskrár og hefur skráðum einstaklingum í þjóðkirkjuna fækkað um 799 síðan 1. desember 2022. Næst fjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag landsins er Kaþólska kirkjan með 14.985 skráða meðlimi og í þriðja sæti yfir fjölmennasta trú- og lífsskoðunarfélag er Fríkirkjan í Reykjavík með 9.927 skráða meðlimi.
Fjölgað mest í Siðmennt
Frá 1. desember 2022 til 1. júní 2023 hefur fjölgun meðlima í trú- og lífsskoðunarfélagi verið mest í Siðmennt eða um 235 meðlimi, sem er um 4,4% fjölgun en næst mest í Kaþólsku kirkjunni og Ásatrúarfélaginu eða um 136 meðlimi. Mest hlutfallsleg fjölgun var hjá lífsskoðunarfélaginu Lífspekifélag Íslands, eða um 65,5%, en nú eru 48 meðlimir skráðir í félagið.
Ótilgreint og utan trú- og lífsskoðunarfélaga
Alls voru 30.283 einstaklingar skráðir utan trú- og lífsskoðunarfélaga eða 1,6% landsmanna. Ef að einstaklingur er utan trú- eða lífsskoðunarfélaga þá hefur sá einstaklingur tekið afstöðu til þeirrar skráningar sinnar. Alls voru 77.535 einstaklingar skráðir með ótilgreinda skráningu. Ef að einstaklingur er með ótilgreinda skráningu þá hefur hann ekki tekið afstöðu til skráningar í trú- eða lífsskoðunarfélag. Hér má sjá töflu yfir fjölda skráðra eftir trú- og lífsskoðunarfélögum í byrjun mánaðarins og samanburð við tölur frá 1. desember 2020-2022.
Þessar tölur eru byggðar á skráningu Þjóðskrár á fjölda einstaklinga sem eru skráðir með búsetu hér á landi. Öllum er heimil afnot af fréttinni og meðfylgjandi gögnum en vinsamlegast getið heimildar.