Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru einstaklingar með skráð lögheimili á Íslandi orðnir 400 þúsund talsins. Þetta er þó lifandi tala og líkur á því að hún verði breytileg í kringum 400 þúsund í einhverja daga því á hverjum degi eru margar skráningar í þjóðskrá sem hafa áhrif á heildarfjölda lögheimilisskráninga.
Hér má sjá skiptingu íbúa eftir landshlutum:
Skráning lögheimilis
Þjóðskrá heldur utan um skráningar einstaklinga hér á landi sem hafa áhrif á réttindi og skyldur þeirra, þar með talið skráningu lögheimilis. Óheimilt er að eiga lögheimili á fleiri en einum stað í einu og ber einstaklingum að tilkynna Þjóðskrá um flutning á lögheimili og er það ábyrgð einstaklinga að upplýsa um rétta búsetu. Einstaklingar 18 ára og eldri verða að tilkynna flutning sjálfir.
Þó er einstaklingum heimilt að dvelja erlendis í allt að 6 mánuði á 12 mánaða tímabili án þess að skrá lögheimili sitt úr landi. Einnig er heimilt að vera skráður með aðsetur erlendis vegna veikinda eða náms og halda lögheimili sínu á Íslandi.
Hver býr í eigninni minni?
Þjóðskrá getur breytt skráningu lögheimilis einstaklinga að eigin frumkvæði eða á grundvelli beiðnar frá þinglýstum eiganda húsnæðis eða öðrum sem hagsmuna eiga að gæta.
Þinglýstir eigendur geta flett upp hver býr í eign sinni hér og tilkynnt um ranga skráningu þeirra sem ekki búa þar. Þegar tilkynning berst Þjóðskrá fer í gang ferli sem miðast að því að framfylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993.
Íslenskir ríkisborgarar
Samkvæmt skráningu í þjóðskrá eru íslenskir ríkisborgarar orðnir 374 þúsund talsins og þar af eru um 13% með skráð lögheimili erlendis. Íslenskir ríkisborgarar með skráða búsetu á Íslandi eru því um 324 þúsund talsins.
Þjóðskrárgáttin
Þjóðskrárgáttin sýnir gagnlega og skemmtilega tölfræði úr þjóðskrá . Þar er hægt að sjá yfirlit yfir íbúa landsins, búsetur þeirra, aldur, og kyn í öllum sveitarfélögum, tölurnar byggja á lögheimilisskráningu einstaklinga í þjóðskrá. Einnig er hægt að sjá vinsælustu nöfnin og hvar íslenskir ríkisborgarar eru búsettir í heiminum.
Öllum er heimil afnot af fréttinni og meðfylgjandi gögnum en vinsamlegast getið heimilda.