Þjóðskrá03. október 2024

Þjóðskrá Íslands hefur hlotið Hinsegin vottun frá Samtökunum '78

Þjóðskrá Íslands er stolt af því að tilkynna að stofnunin hefur hlotið Hinsegin vottun frá Samtökunum '78 og er hún fyrsta stofnunin til að fá þessa viðurkenningu.

Þjóðskrá Íslands er stolt af því að tilkynna að stofnunin hefur hlotið Hinsegin vottun frá Samtökunum '78 og er hún fyrsta stofnunin til að fá þessa viðurkenningu. Þetta eru merk tímamót í samstarfi Þjóðskrár við hinsegin samfélagið og staðfestir skuldbindingu stofnunarinnar um að skapa jöfn tækifæri fyrir öll.

Hinsegin vottun Samtakanna ’78 fer í gegnum félagasamtökin sjálf og byggir fyrst og fremst á fræðslu um fjölbreytileikann. Hinsegin vottunin er hönnuð til að meta og viðurkenna þau skref sem stofnanir og fyrirtæki taka til að tryggja að allir einstaklingar, óháð kyni og kynhneigð, njóti jafnrar meðferðar og virðingar á vinnustað.

Þjóðskrá fagnar þessari viðurkenningu fyrst stofnana, sem er ánægjulegt í ljósi þess að fyrsti formaður Samtakanna '78, Guðni Baldursson, vann alla sína starfsævi hjá Þjóðskrá, eða í hartnær 50 ár. Guðni lést árið 2017 og helgaði hann líf sitt baráttu fyrir réttindum samkynhneigðra og hafði mikil áhrif í samfélaginu.

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir Þjóðskrá. Við erum auðmjúk og þakklát fyrir viðurkenningu Samtakanna ´78 og mun hún styðja okkur í þeirri vegferð að skapa vinnuumhverfi þar sem öllum líður vel sem og að bjóða viðskiptavinum okkar þjónustu sem er laus við fordóma“ segir Hildur Ragnars, forstjóri Þjóðskrár. Við stefnum að því að vera leiðandi í að stuðla að jafnrétti og fjölbreytileika með virðingu að leiðarljósi.”

Við hjá Þjóðskrá trúum því að þessi vottun muni styrkja tengsl okkar við hinsegin samfélagið enn frekar og stuðla að því að gera Ísland að betri stað fyrir öll.


Skrá mig á póstlista

Útgáfuáætlun

Hér má sjá útgáfuáætlun Þjóðskrár.

Skoða nánar