Mikil þjónustubæting fyrir viðskiptavini Þjóðskrár
Núna stendur öllum landsmönnum til boða að sækja vegabréf og nafnskírteini í verslun Hagkaups í Skeifunni, allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.
Það er mikil þjónustubæting fyrir viðskiptavini Þjóðskrár að geta nálgast skilríki miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Við verslun Hagkaups Skeifunni eru næg bílastæði sem ekki þarf að greiða fyrir, mun betra aðengi er fyrir viðskiptavini, sérstaklega fyrir fatlaða og opið allan sólarhringinn. Gæta þarf að mörgum þáttum þegar að skilríki eru afhent og hefur starfsfólk Hagkaups fengið viðeigandi þjálfun og sömu öryggistöðlum verður fylgt eftir sem áður.
Engin breyting verður á núverandi umsóknarferli vegabréfa og nafnskírteina, ávallt þarf að mæta í umsókn til sýslumanna. Þar getur umsækjandi óskað eftir því að sækja skilríkin í Hagkaup og hefur til þess 7 daga frá því að skilríkið er tilbúið. Eftir þann tíma þarf viðkomandi að sækja skilríkið til Þjóðskrár, Borgartúni 21.
Júlía Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Þjóðskrá:
Við höfum lengi leitað lausna við að bjóða okkar viðskiptavinum upp á betri þjónustu við afhendingu skilríkja.
Þjóðskrá er þjónustustofnun og leiðarljósið hennar er hvar sem er, hvenær sem er. „Því veltum við því fyrir okkur hvað við gætum gert til að bæta þessa þjónustu, vera meira miðsvæðis, bjóða upp á fleiri bílastæði án gjaldtöku og rýmri opnunartíma. Þá kom nafn Hagkaups upp í hugann og við ákváðum að leita til þeirra með þessa hugmynd sem samræmist leiðarljósi Þjóðskrár.
Stjórnendur Hagkaups tóku strax vel í hugmyndina og hafa unnið hratt og vel í að láta þennan draum rætast. Við erum því glöð að geta veitt viðskiptavinum okkar betri þjónustu.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups:
Við vorum himinlifandi að fá þessa fyrirspurn frá Þjóðskrá því við sem þjónustufyrirtæki erum stöðugt að leita nýrra leiða til að mæta betur þörfum viðskiptavina okkar. Við erum því stolt af því að vera valin í þetta samstarf af ríkisstofnun sem þorir að hugsa út fyrir boxið, eins og sagt er. Það verður án efa mikil breyting fyrir viðskiptavini Þjóðskrár að geta komið þegar þeim hentar til að sækja skilríki sín og við hlökkum til að taka á móti þeim öllum
Afhending skilríkja í Hagkaup er tilraunaverkefni til 6 mánaða og vel verður fylgst með öllum þáttum verkefnisins.
Nánari upplýsingar um vegabréf, umsóknarferli, afhendingu og fleira má finna hér.