Kennitala - úthlutun

Barn fætt á Íslandi fær sjálfvirkt úthlutað kennitölu frá Þjóðskrá um leið og það er skráð í tölvukerfi fæðingarstofnunar. Aðrir fá kennitölu úthlutað sjálfvirkt um leið og þeir eru skráðir. Kennitala er reiknuð út frá fæðingardegi.

Dæmi:
Fæðingardagur einstaklings er 12. janúar 1960, sex fyrstu tölustafirnir í kennitölunni eru því 120160 þ.e. dagur, mánuður og ár (stytt í 2 tölustafi).

Næstu tveir tölustafir hafa enga merkingu og er þeim alla jafna úthlutað í röð frá og með 20, t.d. 120160-33. Því næst er vartalan (öryggistalan) reiknuð út en hún má vera á bilinu 0 til 9.

Aftasti stafur í kennitölu er 8, 9 eða 0 og merkir hann öldina sem viðkomandi er fæddur á.

Útreikningur vartölu

Tilgangurinn með vartölunni er að minnka innsláttarvillur við ritun kennitalna. Notuð er svokölluð Modulus 11 reikniaðferð. Hér á eftir er dæmi um útreikning á kennitölu:

Byrjað er á því að margfalda talnaröðina (fæðingardag og ár ásamt raðtölunni) frá hægri til vinstri með 2-7 eins og hér er sýnt:

1 2 0 1 6 0 3 3
x x x x x x x x
3 2 7 6 5 4 3 2
3 4 0 6 30 0 9 6

Niðurstöðutölurnar eru síðan lagðar saman og útkoman er 58. Deilt er í summuna með 11. 58 : 11 = 5 og vantar þá 3 til að dæmið gangi upp. Loks er afgangurinn dreginn frá 11, 11 - 3 = 8. Vartalan er því 8 og fyrstu níu stafir kennitölunnar verða 120160-338.

Ef niðurstaðan er 11 þá skal vartalan vera 0. Ef niðurstaðan er 10 þá er vartalan ónothæf. Er þá raðtalan hækkuð um einn og ný vartala reiknuð út.