Þjóðskrá leysir skv. lögum nr. 70/2018 hlutverk sitt vegna kosninga með því að gefa út kjörskrá, reka utankjörfundakerfi og sinna verkefnum sem henni eru falin við framkvæmd kosninga.

Samkvæmt ákvæðum kosningalaga eiga sveitarstjórnir að láta kjörskrá liggja frammi á skrifstofum sínum til sýnis. Þar geta kjósendur farið yfir og kannað hvort þeir eru á kjörskrá. Þjóðskrá opnar í samráði við dómsmálaráðuneyti aðgang að vef, kjósendum til hagræðingar, þar sem hver og einn getur kannað hvort hann er á kjörskrá. Á vefnum birtast að öllu leyti sömu upplýsingar og er að finna í kjörskrám sem liggja fyrir hjá sveitarstjórnum. Þar geta kjósendur kannað hvar þeir eru á kjörskrá í komandi kosningum. Þegar slegin er inn kennitala kemur upp nafn, lögheimili og sveitarfélag. Yfirleitt birtast einnig upplýsingar um kjörstað og kjördeild. Rétt er að geta þess að ekki er verið að fletta upp í þjóðskrá heldur er flett upp í kjörskrám. Strax að kjördegi loknum er vefurinn tekinn niður og þar með er lokað fyrir aðgang að kjörskránni.

Kjósendur eru á kjörskrá í því sveitarfélagi þar sem þeir eiga skráð lögheimili 38 dögum fyrir kjördag. Flutningur lögheimilis eftir uppgefinn tíma breytir ekki skráningu á kjörskrá. Hver sem er getur gert athugasemdir og sent til Þjóðskrár Íslands um að nafn eða nöfn einhverra kjósenda vanti á kjörskrá eða þeim sé þar ofaukið. Heimilt er að gera slíkar athugasemdir til Þjóðskrár Íslands fram á kjördag. Athugasemdir má senda á kosningar@skra.is