Skráning foreldra
Skráning á hverjir teljast foreldri barns byggist m.a. á fæðingartilkynningum, hjúskaparstöðu móður, faðernisviðurkenningum, dómum um faðerni, ættleiðingarskýrslum og erlendum fæðingarvottorðum.
Öll börn eru tengd við kennitölu móður sinnar á grundvelli upplýsinga á fæðingartilkynningu eða -vottorði. Samkvæmt barnalögum er móður skylt að feðra barn sitt. Samkvæmt ákvæðum barnalaga tilkynnir Þjóðskrá sýslumanni um ófeðruð börn 6 mánaða og eldri.
Móðir barns er í hjúskap eða skráðri sambúð í þjóðskrá.
Móðir barns er skráð samkvæmt upplýsingum á fæðingartilkynningu.
Feðrun
Þegar móðir barns er í hjúskap eða skráðri sambúð með lýstum föður í þjóðskrá er eiginmaður hennar eða sambýlismaður skráður faðir barns samkvæmt ákvæðum barnalaga. Ef faðir er annar en maki móður þarf að fara fram véfenging á faðerni barns fyrir dómi áður en unnt er að feðra barn öðrum manni.
Tvær mæður í hjúskap eða skráðri sambúð.
Leggja þarf fram skjal sem staðfestir að getnaður hafi farið fram samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun o.fl. Vert er að undirstrika að ástæða þess að Þjóðskrá kallar eftir framangreindum upplýsingum er svo unnt sé að framfylgja barnalögum nr. 76/2003 um skráningu foreldra barns. Mæður geta sjálfar skilað inn slíku skjali eða veitt Þjóðskrá umboð til að afla þess.
Eignist kona, í hjónabandi eða skráðri sambúð, barn sem ekki er getið við tæknifrjóvgun samkvæmt lögum nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun o.fl., t.d. með tæknifrjóvgun sem fer fram erlendis, eiga almennar reglur barnalaga um faðerni við.
Foreldrar eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð
Ófeðrað barn verður feðrað með því að
- Faðernisviðurkenning með því að skila inn eyðublaði A-154 til Þjóðskrár.
- Faðernisviðurkenningu hjá sýslumanni sem sendir staðfestingu á faðerni til Þjóðskrár.
- Hjúskapur eða skráð sambúð. Ef móðir og maður sem hún hefur lýst sem föður barns ganga í hjúskap eða skrá sambúð sína þá verður barn sjálfkrafa feðrað. Forsjá barns verður jafnframt sameiginleg, sjá skráningu forsjár og lögheimilisforeldris.
Barn einhleyprar konu sem getið er með tæknifrjóvgun á Íslandi, samkvæmt lögum nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun o.fl., verður ekki feðrað samkvæmt barnalögum. Í tilfellum sem þessum þarf móðir barns að leggja fram staðfestingu um tæknifrjóvgun innan 6 mánaða frá fæðingu barns. Mæður geta sjálfar skilað inn slíku skjali eða veitt Þjóðskrá Íslands umboð til að afla þess. Ef staðfesting berst ekki innan tilskilins tíma þá tilkynnir Þjóðskrá Íslands sýslumanni um ófeðrað barn sbr. ákvæði barnalaga.