Skráning samhliða nýskráningu í þjóðskrá
Börn
Sérstakar reglur gilda um hvernig staðið er að skráningu barna í trú- og lífsskoðunarfélög:
Ef foreldrar barns eru í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns á eftirfarandi við:
- Ef foreldrar tilheyra sama trúfélagi, lífsskoðunarfélagi eða eru bæði utan trúfélaga er barn þeirra skráð á sama hátt og foreldrar þess.
- Ef foreldrar tilheyra ekki sama trúfélagi eða lífsskoðunarfélagi eða annað foreldrið er utan trúfélags- eða lífsskoðunarfélags er barnið skráð í ótilgreint trúfélag.
Ef foreldrar barns eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð við fæðingu barns:
- Í slíkum tilvikum verður barnið skráð í sama trúfélag eða lífsskoðunarfélag og móðir, þar sem hún fer ein með forsjá þar til gengið er frá samkomulagi um forsjá barns hjá sýslumanni.
Forsjármenn barns geta tilkynnt um breytingar á skráningu í eða úr trú- eða lífsskoðunarfélag þess. Skírn jafngildir ekki skráningu í trú- eða lífsskoðunarfélag.
Erlendir ríkisborgarar
Erlendir ríkisborgarar eru skráðir í ótilgreint trúfélag við nýskráningu í þjóðskrá. Tilkynna má um breytta skráningu í trúfélag, lífsskoðunarfélag eða skráningu utan trúfélaga eða lífsskoðunarfélaga með því að skila eyðublaði A-280 til Þjóðskrár.