Flutningur

Tilkynna flutning

 • Tilkynna skal flutning innan 7 daga eftir að flutt er. Flutning er hægt að tilkynna rafrænt eða með því að mæta í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík eða á Akureyri. Vinsamlegast athugið að framvísa þarf löggildum skilríkjum: vegabréfi, íslensku ökuskírteini eða nafnskírteini.

  Einstaklingar geta ekki tilkynnt flutning lögráða barna sinna eða foreldra. 

  Einungis er heimilt að skrá lögheimili í íbúðarhúsnæði og þarf húsnæðið að vera komið á byggingarstig 4. 

  Tilkynning vegna flutnings fyrirtækja/félaga er á vef Ríkisskattstjóra.

  Munið að láta Póstinn vita um breytt heimilisfang. Athugið að Íslandspóstur fær ekki sjálfvirkt tilkynningar um flutning frá Þjóðskrá Íslands.

 • Hægt er að tilkynna flutning til Íslands rafrænt. Eftir að rafrænni flutningstilkynningu hefur verið skilað inn þá þurfa allir aðilar sem flytja að mæta á móttökustað og framvísa þar gildum ferðaskilríkjum. Móttökustaðir vegna flutnings til landsins eru afgreiðslur Þjóðskrár Íslands í Reykjavík og á Akureyri og skrifstofur lögreglustjóra. Flutningur verður ekki skráður fyrr en einstaklingar hafa mætt á móttökustað og framvísað skilríkjum sínum. Eins er hægt að mæta í afgreiðslur Þjóðskrár Íslands í Reykjavík og á Akureyri og tilkynna um flutning til landsins og þá þurfa einnig allir sem flytja að mæta og framvísa skilríkjum sínum. Tilkynna skal flutning innan 7 daga eftir komu til landsins.

  Flutning frá Íslandi þarf að tilkynna innan 7 daga. Hægt er að tilkynna flutninginn rafrænt eða í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands í Reykjavík eða Akureyri gegn framvísun löggildra skilríkja. Flytji hjón eða sambúðarfólk frá Íslandi þarf maki að samþykkja flutninginn. 

  Flutning milli Norðurlanda þarf ávallt að tilkynna í eigin persónu hjá hlutaðeigandi skráningarskrifstofu í því landi sem flutt er til.

  Nánar um flutning til og frá útlöndum

 • Ef flytja á barn erlendis frá til Íslands þá þarf að veita upplýsingar um forsjá barnsins.

  Þjóðskrá Íslands hvetur til þess að forsjárgögnum, frá landi sem flutt er frá, sé skilað til stofnunarinnar þegar tilkynnt er um flutning barns til Íslands. Með því er hægt að skrá forsjá barns strax við heimkomu og einfaldar það meðal annars vottorða-og vegabréfaútgáfu og aðrar skráningar sem varða barnið og hagi þess.

  Sameiginleg forsjá:

  • Í tilvikum þar sem forsjá er sameiginleg og flytja á barn eitt milli fólks t.d. frá einu forsjárforeldri til annars þarf samningur um breytt lögheimili barns að hafa borist frá sýslumanni til Þjóðskrár Íslands.
  • Ef forsjárforeldrar eru í hjúskap eða skráðri sambúð með hvort öðru og flytja á barn eitt til þriðja aðila þarf að tilgreina hverjum barnið á að tengjast í þjóðskrá. Skriflegt samþykki þess sem barnið á að tengjast þarf að fylgja með flutningstilkynningu. Fullnægjandi er að annað forsjárforeldrið undirriti tilkynninguna í tilvikum sem þessum. Sjá kröfur til skjala - vegna barna
  • Í tilvikum þar sem foreldrar eru í hjúskap eða sambúð og barn flytur með öðru foreldri á milli landa, þarf samþykki þess foreldris sem ekki flytur með.

  Einn með forsjá:

  • Ef forsjármaður er einn þá þarf ekki samþykki þess foreldris sem ekki fer með forsjá, en forsjármanni ber að upplýsa umgengnisforeldri um flutning lögheimilis með a.m.k. sex vikna fyrirvara.

   

  Viðeigandi eyðublöð

 • Þegar lögheimili hjóna er flutt innanlands er nægjanlegt að annað hjóna tilkynni. Þegar lögheimili er flutt til útlanda þarf samþykki maka einnig að liggja fyrir.

  Þrátt fyrir að hjón skuli hafa sama lögheimili er þeim heimilt að skrá það hvort á sínum stað. Sitthvort lögheimili hjóna er tilkynnt með flutningstilkynningu. 

  Ganga þarf frá skilnaði hjá sýslumanni. Ef lögskilnaður fór fram í útlöndum skal leggja fram gögn þess eðlis.

  Ef fólk í hjúskap er að taka upp samvistir á ný eftir skilnað að borði og sæng þarf samþykki beggja aðila að liggja fyrir. 

  Grundvöllur sambúðarskráningar er sameiginlegt lögheimili sambúðarmaka. Ekki er hægt að skrá sig úr sambúð á grundvelli flutningstilkynningar þegar sambúðaraðilar eiga börn saman. 

  Nánari upplýsingar um flutning hjóna

  Tilkynna flutning

 • Aðsetursskráning innanlands

  Með aðsetursskráningu innanlands heldur einstaklingur lögheimili sínu en skráir aðsetur þar sem hann dvelur. Skráning aðseturs innanlands er heimil þeim sem hana þurfa vegna náms eða veikinda sem og alþingismönnum og ráðherrum, ásamt mökum þeirra og börnum. 

  Aðsetursskráning í útlöndum

  Með aðsetursskráningu í útlöndum heldur einstaklingur lögheimili sínu á Íslandi en skráir aðsetur í því landi sem hann dvelur.  Tilkynna þarf um aðsetursskráningu hjá Þjóðskrá Íslands. Einungis er heimilt að skrá aðsetur í útlöndum vegna námsdvalar, veikinda eða opinberra starfa. Heimildin er tímabundin. Ekki er hægt að skrá aðsetur á Norðurlöndum, en samkvæmt Norðurlandasamningi ber þeim einstaklingum sem þangað flytja að eiga lögheimili í viðkomandi landi meðan á dvöl stendur. 

  Nánar um aðsetur

  Tilkynna aðsetursbreytingu
 • Ekki er heimilt að skrá lögheimilisflutning lengra aftur í tímann en 14 daga, sbr. lög um lögheimili og aðsetur, nema hægt sé að framvísa gögnum sem staðfesta búsetu þína aftur í tímann, þá aldrei lengur en eitt ár aftur í tímann frá þeim degi þegar beiðni er lögð fram, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna.
   
  Ef sótt er um afturvirka skráningu flutnings þarf að leggja fram gögn með flutningstilkynningu sem staðfesta búsetu á viðkomandi stað á því tímabili sem óskað er eftir að fá flutninginn skráðan.
   
  Gögn sem staðfesta  búsetu geta til dæmis verið undirritaður leigusamningur, hita- og rafmagnsreikningur eða önnur gögn sem staðfesta búsetu frá tilgreindum tíma. Nafn og kennitala ásamt tilgreindu heimilisfangi og dagsetning verða að koma fram í þessum gögnum.
   

 • Þinglýstir eigendur, sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir og aðrir geta samkvæmt lögum sent beiðni um að lögheimili tiltekins einstaklings sé fært. Þegar beiðni um flutning þriðja aðila berst þjóðskrá eru upplýsingar metnar og málið sett í viðeigandi farveg.

  Beiðni 3ja aðila um flutning einstaklinga

  Tilkynning vegna flutnings fyrirtækja/félaga er á vef Ríkisskattstjóra.

  Munið að láta Póstinn vita um breytt heimilisfang. Athugið að Íslandspóstur fær ekki sjálfvirkt tilkynningar um flutning frá þjóðskrá.

Athugið

01

Flutning þarf að  tilkynna innan 14 daga eftir að flutt er

02

Ekki er hægt að tilkynna flutning  fram í tímann

04

Athugið að einnig þarf að tilkynna  flutning hjá Póstinum