Flutningur

Tilkynna flutning

 • Tilkynnið flutning innan 14 daga eftir að flutt er. Ekki er tekið á móti flutningstilkynningum vegna flutninga fram í tímann.

  Sá sem er ekki í hjúskap eða skráðri sambúð þarf sjálfur að tilkynna flutning sinn. Einstaklingar geta ekki tilkynnt flutning lögráða barna sinna eða foreldra. 

  Hjón eiga að hafa sama lögheimili.  Ef skilnaður er fyrirhugaður þarf að tilgreina í athugasemdum að um fyrirhugaðan skilnað er að ræða. Ef fólk í hjúskap er að taka upp samvistir á ný, t.d. eftir skilnað að borði og sæng, þá tilgreinist það í athugasemdum. Sá maki sem flutt er til þarf að staðfesta samvistirnar. Ef lögskilnaður fór fram erlendis skal leggja fram gögn þess eðlis.

  Ekki er hægt að skrá sig úr sambúð á grundvelli flutningstilkynningar þegar sambúðaraðilar eiga börn saman. Ekki skal senda inn flutningstilkynningar vegna sambúðarslita þegar börn eru annars vegar fyrr en staðfesting á forsjá barna frá sýslumanni liggur fyrir.

  Tilkynntu flutning hér

  Beiðni 3ja aðila um flutning einstaklinga
 • Ef flytja á barn erlendis frá til Íslands þá þarf að veita upplýsingar um forsjá barnsins.

  Þjóðskrá Íslands hvetur til þess að forsjárgögnum, frá landi sem flutt er frá, sé skilað til stofnunarinnar þegar tilkynnt er um flutning barns til Íslands. Með því er hægt að skrá forsjá barns strax við heimkomu og einfaldar það meðal annars vottorða-og vegabréfaútgáfu og aðrar skráningar sem varða barnið og hagi þess.

  Sameiginleg forsjá:

  • Í tilvikum þar sem forsjá er sameiginleg og flytja á barn eitt milli fólks t.d. frá einu forsjárforeldri til annars þarf samningur um breytt lögheimili barns að hafa borist frá sýslumanni til Þjóðskrár Íslands.
  • Ef forsjárforeldrar eru í hjúskap eða skráðri sambúð með hvort öðru og flytja á barn eitt til þriðja aðila þarf að tilgreina hverjum barnið á að tengjast í þjóðskrá. Skriflegt samþykki þess sem barnið á að tengjast þarf að fylgja með flutningstilkynningu. Fullnægjandi er að annað forsjárforeldrið undirriti tilkynninguna í tilvikum sem þessum. Sjá kröfur til skjala - vegna barna
  • Í tilvikum þar sem foreldrar eru í hjúskap eða sambúð og barn flytur með öðru foreldri á milli landa, þarf samþykki þess foreldris sem ekki flytur með.

  Einn með forsjá:

  • Ef forsjármaður er einn þá þarf ekki samþykki þess foreldris sem ekki fer með forsjá, en forsjármanni ber að upplýsa umgengnisforeldri um flutning lögheimilis með a.m.k. sex vikna fyrirvara.

   

  Viðeigandi eyðublöð

 • Flutning til Íslands þarf ávallt að tilkynna í eigin persónu með því að koma í afgreiðslu Þjóðskrár Íslands eða til næsta lögregluembættis, fylla út tilkynningu og framvísa skilríkjum. Tilkynna á flutning innan 14 daga eftir komu til landsins.

  Ef sambúð var slitið þegar flutt var erlendis þá er hún ekki skráð aftur nema að Þjóðskrá Íslands berist tilkynning á þar til gerðu eyðublaði.

  Ábending til foreldra/forráðamanna barna sem flytja til Íslands erlendis frá. Þjóðskrá Íslands hvetur til þess að forsjárgögnum, frá landi sem flutt er frá, sé skilað til stofnunarinnar þegar tilkynnt er um flutning barns til Íslands. Með því er hægt að skrá forsjá barns strax við heimkomu og einfaldar það meðal annars vottorða-og vegabréfaútgáfu og aðrar skráningar sem varða barnið og hagi þess.

  Flutning frá Íslandi þarf að tilkynna innan 14 daga.

  Flutning milli Norðurlanda þarf ávallt að tilkynna í eigin persónu hlutaðeigandi skráningarskrifstofu í því landi sem flutt er til.

  Ef flutt er til landa annara en Norðurlanda gilda sömu reglur og um flutning innanlands. Tilkynna flutning

  Athugið að ef annar aðili í sambúð flytur til útlanda þá er sambúð slitið í þjóðskrá með þeim réttaráhrifum sem slíkt felur í sér t.a.m. ef viðkomandi eiga börn saman þá má ekki slíta sambúð nema að búið sé að ganga frá forsjá.

  Ef sá aðili sem ekki flutti frá Íslandi flytur síðar til útlanda til fyrrum sambúðarmaka þá verða viðkomandi ekki skráðir í sambúð nema þeir óski eftir því á þar til gerðu eyðublaði

  Erlendir ríkisborgarar þurfa að tilkynna flutning á öðru eyðublaði þó þeir hafi áður fengið kennitölu, sjá: nýskráning erlendra ríkisborgara

 • Námsmenn sem dveljast í öðru sveitarfélagi/landi vegna skólagöngu geta haldið lögheimili í heimabyggð. Skrifa á upplýsingar í reitinn athugasemdir í tilkynningu um flutning. Vottorð frá skóla verður að fylgja.

  Tilkynna aðsetursbreytingu
 • Þinglýstir eigendur, sveitarfélög, heilbrigðisstofnanir og aðrir geta samkvæmt lögum sent beiðni um að lögheimili tiltekins einstaklings sé fært. Þegar beiðni um flutning þriðja aðila berst þjóðskrá eru upplýsingar metnar og málið sett í viðeigandi farveg.

  Beiðni 3ja aðila um flutning einstaklinga

  Tilkynning vegna flutnings fyrirtækja/félaga er á vef Ríkisskattstjóra.

  Munið að láta Póstinn vita um breytt heimilisfang. Athugið að Íslandspóstur fær ekki sjálfvirkt tilkynningar um flutning frá þjóðskrá.

Athugið

01

Flutning þarf að  tilkynna innan 14 daga eftir að flutt er

02

Ekki er hægt að tilkynna flutning  fram í tímann

03

Flutning til Íslands þarf  að tilkynna í eigin persónu og sýna skilríki

04

Athugið að einnig þarf að tilkynna  flutning hjá Póstinum