Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 13,8% frá yfirstandandi ári og verður 7.288 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2018 sem Þjóðskrá Íslands birti í dag. Fasteignamatið hækkar á 98,3% eigna en lækkar á 1,7% eigna frá fyrra ári.
Íbúðarhúsnæði hækkar mikið
Samanlagt mat íbúða (130.346) á öllu landinu hækkar samtals um 15,5% frá árinu 2017 og verður alls 4.980 milljarðar króna. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar matsverð íbúða í sérbýli meira en íbúðir í fjölbýli.
Húsavík sker sig úr öðrum bæjum. Þar hækkar íbúðamatið um 42,2%.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 9,1% á landinu öllu; um 10,6% á höfuðborgarsvæðinu en um 5,7% á landsbyggðinni.
Hækkun fasteignamats 2018 | Sérbýli | Fjölbýli | Atvinnuhúsnæði |
Landið | 15,8% | 15,2% | 9,1% |
Höfuðborgarsvæðið | 17,5% | 15,4% | 10,6% |
Utan höfuðborgarsvæðisins | 12,2% | 13,7% | 5,7% |
Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 14,5%, um 12,5% á Suðurnesjum, um 14% á Vesturlandi, 8,6% á Vestfjörðum, 12,2% á Norðurlandi vestra, 12,4% á Norðurlandi eystra, 6,4% á Austurlandi og um 12,9% á Suðurlandi.
Fasteignamat hækkar mest í Kjósarhreppi eða um 41,3%, um 27,5% í Norðurþingi, um 25,9% í Reykhólahreppi og 25,2% í Skorradalshreppi.
Svipuð hækkun á höfuðborgarsvæðinu og nærliggjandi sveitarfélögum
Meðalhækkun á mati íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu er 16,5% og hækka flest svæði innan þess um 15-20%. Svipaða hækkun má sjá í nágrannasveitarfélögum, þannig hækkar matssvæðið Njarðvík um 18,6%, Keflavík um 18,3%, Grindavík um 19,1%, Akranes um 18,8%, Hveragerði um 17,9% og Selfoss um 17,5%.
Fasteignamatið byggist á upplýsingum úr þinglýstum kaupsamningum auk fjölmargra annarra þátta sem hafa áhrif á verðmæti fasteigna. Nýja fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2017. Það tekur gildi 31. desember 2017 og gildir fyrir árið 2018. Frestur til að gera athugasemdir við nýtt fasteignamat er til 30. desember 2017.
Ný matssvæði sumarbústaða
Þjóðskrá Íslands hefur frá árinu 2009 unnið að endurskoðun á aðferðafræði fasteignamats fyrir allar tegundir eigna til að endurspegla betur markaðsverð fasteigna á hverjum tíma en unnt var með eldri aðferðum.
Árið 2009 var tekin upp ný aðferðafræði fyrir íbúðareignir og árið 2014 voru nýjar aðferðir teknar upp við mat á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og léttum iðnaðareignum. Nú er komið að sumarbústöðum. Nýtt mat fyrir sumarbústaði byggist á þinglýstum kaupsamningum. Um er að ræða samskonar aðferðarfræði og notuð er fyrir íbúðarhúsnæði.Heildarfasteignamat sumarbústaða og sumarbústaðalóða á landinu (19.372 fasteignir) hækkar úr 167 í 231 milljarð króna eða um 38,7%. Það eru 90,2% sumarbústaða sem hækka í mati en 9,8% lækka. Talsverður breytileiki á matsbreytingum er eftir svæðum. Algengasta hækkun er 39,7%. Þó svo að matsbreytingar séu miklar í prósentum þá eru 70% eigna að hækka um innan við 4 milljónir kr. og 80% minna en um 6 milljónir kr.
Ný matssvæði sumarbústaða
Staðsetning ræður miklu um verðmæti sumarbústaða. Þannig skiptir fjarlægð frá golfvöllum, háspennulínum og nálægð við vatn máli fyrir matið. Fyrir fasteignamatið voru mynduð ný markaðssvæði fyrir sumarhúsabyggðir. Í fasteignamatinu 2018 eru verðmætustu sumarhúsabyggðir landsins á Suðurlandi. Dýrasta svæðið er Þingvellir, þar á eftir kemur Kiðjaberg og svæðið við Álftavatn.
Eigin skoðun sumarbústaðaeiganda
Mikilvægt er fyrir sumarbústaðaeigendur að vera vakandi fyrir því að eignir séu rétt skráðar. Ef eigandi er ósáttur við niðurstöðu fasteignamatsins eða ef eign er ranglega skráð (ef t.d. búið er að bæta við pöllum eða leggja í aðrar framkvæmdir eða endurbætur) er ráðlegt að skoða eignina til að fá nýtt brunabótamat og fasteignamat. Rétt brunabótamat er grundvöllur brunatrygginga bygginga. Nú geta sumarhúsaeigendur sjálfir framkvæmt eigin skoðun á vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is, í stað þess að bíða eftir matsmanni frá Þjóðskrá Íslands.
Miðlun upplýsinga
Upplýsingum um fasteignamatið verður miðlað með sama hætti og undanfarin ár. Eigendur fasteigna geta frá 15. júní nálgast tilkynningarseðil um mat á eignum sínum á upplýsinga- og þjónustuveitunni www.island.is. Til þess þarf rafræn skilríki eða Íslykil sem auðvelt er að sækja um sé hann ekki tiltækur. Einnig er hægt að nálgast fasteignamatið á heimasíðu Þjóðskrár Íslands, www.skra.is. Tilkynning um fasteignamatið 2018 er því rafræn og verður ekki send út til fasteignaeigenda í hefðbundnum bréfpósti. Hins vegar geta eigendur haft samband við Þjóðskrá Íslands og óskað eftir að fá tilkynninguna senda til sín.
Sjá nánari Upplýsingar um fasteignamat 2018