Almennir skilmálar

Til viðskiptavina Þjóðskrár

Almennir skilmálar Þjóðskrár gilda um öll viðskipti Þjóðskrár við viðskiptavini stofnunarinnar, nema um annað sé samið skriflega. Skilmálar þessir, ásamt samningum, gjaldskrá Þjóðskrár, persónuverndarstefnu Þjóðskrár og eftir atvikum samningsviðaukum fyrir hvern viðskiptavin, fela að jafnaði í sér heildarsamning aðilanna um viðskiptin.

Almennir skilmálar þessir taka gildi þann 6. ágúst 2021.

1. Gildissvið almennra skilmála Þjóðskrár

1.1.  Almennir skilmálar Þjóðskrár gilda um kaup og afnot viðskiptavina stofnunarinnar á vörum og þjónustu hvort sem afnotin teljast viðskipti eður ei.

1.2.  Almennir skilmálar Þjóðskrár eru ófrávíkjanlegir og gilda, nema sérstaklega sé um annað samið með skriflegum hætti. Frávik frá skilmálunum teljast ekki samþykkt af hálfu Þjóðskrár fyrr en undirritað samþykki stofnunarinnar liggur fyrir.

1.3.  Auk almennra skilmála gilda eftir atvikum aðrir samningar, s.s. vöktunarsamningar, miðlarasamningar, samningur og samningsviðaukar fyrir hvern viðskiptavin/notanda vöru og/eða þjónustu, ásamt gjaldskrá Þjóðskrár, persónuverndarstefnu Þjóðskrár og eftir atvikum samningsviðaukum fyrir hvern viðskiptavin, fela þessi skjöl í sér heildarsamning aðilanna um viðskipti.

1.4.  Samningar aðila kunna að geyma sérstaka skilmála sem teljast viðauki við almenna skilmála Þjóðskrár. Sé ekki samræmi á texta þeirra ganga hinir sérstöku skilmálar framar almennum skilmálum Þjóðskrár.

1.5.  Samningur milli Þjóðskrár og viðskiptavinar telst kominn á þegar samningur, samningsviðauki eða eftir atvikum tilboð hefur verið samþykkt skriflega af báðum aðilum.

2. Nýjar útgáfur almennra skilmála Þjóðskrár

2.1.  Viðskiptavinur telst hafa samþykkt gildandi almenna skilmála Þjóðskrár með því að kaupa vörur og/eða nýta sér þjónustu stofnunarinnar eða með undirritun á samningi við Þjóðskrá.

2.2.  Þjóðskrá áskilur sér einhliða rétt til að breyta almennum skilmálum og munu breytingar verða kynntar á heimasíðu stofnunarinnar með 30 daga fyrirvara.

2.3.  Eftir gildistöku nýrra almennra skilmála falla viðskipti viðskiptavinar undir hina nýju almennu skilmála Þjóðskrár.

3. Fyrirvari og ábyrgðartakmarkanir

3.1.  Þjóðskrá tekur ekki ábyrgð á misnotkun gagna sem stofnunin hefur afhent viðskiptavini og ber viðskiptavinur fulla ábyrgð gagnvart þriðja aðila á notkun gagna og/eða upplýsinga frá Þjóðskrá eftir afhendingu.

3.2.  Þjóðskrá ber ekki ábyrgð á hugsanlegu tjóni viðskiptavinar og/eða þriðja aðila sem kann að hljótast af því að gögn eða upplýsingar stofnunarinnar reynast rangar, eða ef tafir verða á afhendingu eða uppfærslu gagna, m.a. vegna niðritíma.

3.3.  Þjóðskrá ber í engu tilviki ábyrgð á rekstrartapi viðskiptavinar og/eða þriðja aðila, né heldur afleiddu tjóni slíkra aðila, þ.m.t. glötuðum ágóða eða ráðgerðum sparnaði

4. Eftirlit og meðferð gagna

4.1.  Notkun upplýsinga og/eða gagna sem viðskiptavinur fær frá Þjóðskrá er takmörkuð við þann tilgang sem nánar er tilgreindur í viðkomandi samningi. Notkun sem ekki samræmist tilgreindum tilgangi er með öllu óheimil og kann að varða við lög.

4.2.  Þjóðskrá er eftir atvikum heimilt að framkvæma eftirlit með söfnun upplýsinga viðskiptavinar, tengingu við aðrar skrár og framsetningu upplýsinga hjá viðskiptavini.

4.3.  Þjóðskrá er sömuleiðis heimilt að viðhafa eftirlit með því að upplýsingar eða gögn séu notuð í yfirlýstum tilgangi með vettvangskönnun, fyrirspurnum, úttektum hjá viðskiptavini eða með öðrum lögmætum hætti.

4.4.  Viðskiptavini ber tafarlaust að tilkynna Þjóðskrá telji hann líkur á misnotkun á gögnum frá stofnuninni, verði hann fyrir tölvuárás, ef líkur eru á að upplýsingar hafi komist í hendur óviðkomandi aðila eða ef grunur vaknar um að slík atvik hafi orðið eða séu yfirvofandi. Ef um persónugreinanleg gögn eða upplýsingar er að ræða skal jafnframt farið eftir ákvæði 9.2. í skilmálum þessum.

5. Skyldur viðskiptavinar

5.1.  Viðskiptavinur skuldbindur sig til þess að tryggja öryggi þeirra upplýsinga sem miðlað er áfram til starfsmanna hans og/eða viðskiptavina hans.

5.2.  Allar öryggisráðstafanir viðskiptavinar skulu vera í samræmi við kröfur laga, fyrirmæli Þjóðskrár og bestu framkvæmd hverju sinni.

5.3.  Notkun viðskiptavinar á upplýsingum frá Þjóðskrá sem samræmist ekki ákvæðum samnings aðila eða ákvæðum laga er með öllu óheimil.

5.4.  Þjóðskrá áskilur sér rétt til að fella niður aðgangsheimild viðskiptavinar án fyrirvara telji stofnunin að öryggi upplýsinga eða gagna sé ábótavant eða að notkun viðskiptavinar samræmist ekki heimildum hans og skyldum samkvæmt lögum, samningi viðkomandi við Þjóðskrá eða fyrirmælum Þjóðskrár þar að lútandi.

5.5.  Hvers kyns notkun upplýsinga eða gagna sem brýtur gegn lögum eða skilmálum þessum kann að hafa í för með sér skaðabóta- og refsiábyrgð.

5.6.  Viðskiptavinur lýsir því yfir að hafa gert viðeigandi ráðstafanir vegna ábyrgðar sinnar og sett sér verkferla í samræmi við eðli ábyrgðar sinnar, þar á meðal aflað allra tilskilinna leyfa sem lög og reglur kveða á um.

6. Gjaldtaka

6.1.  Viðskiptavini ber að greiða Þjóðskrá gjöld fyrir þjónustu og vörur samkvæmt samningi aðila eða gildandi gjaldskrá Þjóðskrár hverju sinni.

6.2.  Viðskiptavinur samþykkir að reikningar Þjóðskrár séu sendir með rafrænum hætti í gegnum skeytamiðlara eða til greiðslu í heimabanka viðskiptavinar.

6.3.  Berist greiðsla ekki á eða fyrir eindaga ber viðskiptavini að greiða dráttarvexti skv. ákvörðun Seðlabanka Íslands, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga, nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Við greiðsludrátt er Þjóðskrá heimilt að loka fyrir þjónustu til viðskiptavinar þar til viðskiptaskuld hefur verið gerð upp.

7. Vanefndir og riftun

7.1.  Vanefnd viðskiptavinar kann að leiða til riftunar samninga og getur Þjóðskrá beint skriflegri áskorun til viðskiptavinar um úrbætur. Hvorum aðila er heimilt að rifta samningssambandi aðila án fyrirvara ef um er að ræða verulega vanefnd af hálfu gagnaðilans í samræmi við skilmála þessa, samninga aðila og almennar reglur. Þjóðskrá getur auk venjulegra vanefnda heimilda meðal annars rift samningi vegna vanefnda ef:

  • Viðskiptavinur greiðir ekki reikninga innan 30 daga frá eindaga.
  • Viðskiptavinur uppfyllir ekki samningsbundnar skyldur sínar við stofnunina innan 30 daga frá dagsetningu skriflegrar tilkynningar þess efnis.
  • Ef viðskiptavinur notar vörur og/eða þjónustu Þjóðskrár með öðrum hætti en um er samið eða lög áskilja.
  • Ef viðskiptavini er veitt heimild til greiðslustöðvunar, hann fær heimild til að leita nauðasamninga eða verður gjaldþrota.

8. Uppsögn samninga

8.1.  Þjóðskrá getur hvenær sem er, án fyrirvara og án þess að skapa sér bótaskyldu, sagt upp samningi við viðskiptavin vegna brots eða vanefnda hans á samningsskyldum nema annað leiði ótvírætt af samningum aðila eða lögum. Vanefnd viðskiptavinar á einum samningi við Þjóðskrá heimilar stofnuninni uppsögn á öðrum samningum við þann viðskiptavin.

8.2.  Sé ekki á annan hátt kveðið í samningum er Þjóðskrá heimilt að segja samningi upp með þriggja mánaða fyrirvara.

9. Persónuvernd

9.1.  Þjóðskrá gætir að persónuvernd og öryggi gagna stofnunarinnar. Öll vinnsla persónuupplýsinga hjá Þjóðskrá er í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018. Á heimasíðu Þjóðskrár er að finna nánari upplýsingar um hvernig stofnunin vinnur með gögn, tryggir öryggi og gætir að persónuvernd, https://www.skra.is/um-okkur/personuvernd-og-oryggi

9.2.  Viðskiptavinur skal við vinnslu persónuupplýsinga gera og viðhafa viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar öryggisráðstafanir til að tryggja viðunandi öryggi upplýsinga frá Þjóðskrá og vernda þær m.a. gegn ólöglegri eyðileggingu, gegn því að þær glatist eða breytist fyrir slysni, gegn óleyfilegum aðgangi og gegn allri annarri ólögmætri vinnslu. Viðskiptavinur skal tryggja að öll vinnsla hans sé í samræmi við lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

9.3.  Viðskiptavinur skal tilkynna Þjóðskrá um hvers konar öryggisbrot í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga hafi öryggisbrotið áhrif á stofnunina eða gögn frá stofnuninni um leið og hann verður var við brotið. Með tilkynningu skulu fylgja öll þau gögn sem nauðsynleg eru til þess að Þjóðskrá geti metið umfang öryggisbrotsins og hvort tilkynna þurfi brotið til Persónuverndar. Verði Þjóðskrá vör við öryggisbrot sem áhrif hafa á viðsemjendur stofnunarinnar mun stofnunin tilkynna um öryggisbrotið með sama hætti.

10. Óviðráðanleg ytri atvik (force majeure)

10.1.  Tefji eða hindri óviðráðanleg ytri atvik (force majeure), önnur en fjárhagslegs eðlis, efndir aðila, svo sem jarðskjálftar, eldgos, verkföll, eldsvoði eða flóð, skulu aðilar vera lausir undan því að efna skyldur sínar samkvæmt samningnum meðan slíkar tafir eða hindranir eru fyrir hendi.

10.2.  Þeim samningsaðila, sem er ófær að efna skuldbindingar sínar af völdum óviðráðanlegra ytri atvika, ber að tilkynna gagnaðila hvenær hindrunin hófst og hve lengi áætlað sé að hún vari, jafnskjótt og við verður komið, þó eigi síðar en 1 (einum) mánuði frá því hindrunarinnar varð vart.

11. Trúnaður og þagnarskylda

11.1.  Þjóðskrá skal gæta fyllsta trúnaðar varðandi gögn og málefni viðskiptavina sinna sem stofnuninni verður kunnugt um/öðlast vitneskju um. Eru starfsmenn stofnunarinnar bundnir trúnaði lögum samkvæmt.

11.2.  Viðskiptavinur skuldbindur sig til þess að fara með allar upplýsingar sem trúnaðarmál og mun gera allt sem í hans valdi stendur til að hindra að þær komist til vitundar óviðkomandi. Viðskiptavinur skal brýna þagnarskyldu fyrir starfsfólki sínu og tryggja að upplýsingar fari einungis til þeirra sem hafa með framkvæmd samnings að gera og að því marki sem nauðsynlegt er, nema slík uppljóstrun sé sérstaklega heimiluð skriflega af þeim samningsaðila sem upplýsingarnar varða eða um sé að ræða atriði sem eðli máls samkvæmt er ætlað að komast til vitundar þriðja manns.

11.3.  Þagnarskylda þessi er bindandi fyrir viðskiptavini og starfsfólk viðskiptavina sem kunna að fá trúnaðarupplýsingar starfs síns vegna.

11.4.  Efni allra samninga aðila skal vera trúnaðarmál milli aðila og skulu aðilar ekki veita upplýsingar um efni samninga eða eðli þeirra nema lög, reglugerðir eða ákvarðanir dómstóla mæli svo fyrir eða aðilar verði sammála um að veita afmarkaðar upplýsingar þess efnis.

11.5.  Þagnarskylda helst eftir að samningssambandi aðila lýkur.

12. Lög, varnarþing og úrlausn ágreiningsefna

12.1.  Aðilum er skylt að koma fram gagnvart gagnaðila af heiðarleika og sanngirni. Aðilum er af þeim sökum skylt að leitast af fremsta megni við að leysa ágreining sem rísa kann vegna samningssambands aðila þannig að niðurstaða geti talist ásættanleg fyrir báða aðila.

12.2.  Ágreiningur aðila sem ekki verður leystur með samkomulagi skal rekinn fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.